Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
20. mars 2015

Fjölmenni á íslenska þjóðarbásnum í Boston

Fjölmenni á íslenska þjóðarbásnum í Boston
Íslandsstofa skipulagði þátttöku íslenskra fyrirtækja á sjávarútvegssýningunni í Boston sem fór fram dagana 15.-17. mars. Níu aðilar kynntu afurðir sínar og þjónustu á þjóðarbás Íslands á Seafood Expo North America.

Íslandsstofa skipulagði þátttöku íslenskra fyrirtækja á sjávarútvegs-sýningunni í Boston sem fór fram dagana 15.-17. mars.
Sýningunni var skipt upp í tvo hluta, annarsvegar sjávarafurðir og hinsvegar tækni og þjónusta og var íslenski þjóðarbásinn í þeim síðarnefnda. Þar kynntu níu aðilar afurðir sínar og þjónustu, fyrirtækin Menja, HB Grandi, Iceland Seafood, Novo Food, Icelandic-NýFiskur, IceMar, Arctic Salmon (Fjarðalax), Iceland Responsible Fisheries og Matís.

Þá kynntu Skaginn 3X, Optimar, Valka, Héðinn og Eimskip tæki og þjónustu sína á Seafood Processing North America í samstarfi við Íslandsstofu, auk þess sem ORA (Iceland‘s Finest), Marel, Promens og Íslenska umboðssalan tóku þátt í sýningunni á eigin vegum.

Skipulag á þjóðarbásnum gekk vel fyrir sig og sóttu hann fjölmargir gestir heim þá þrjá daga sem sýningin stóð yfir, að sögn Berglindar Steindórsdóttur sýningastjóra hjá Íslandsstofu. Hún sagði jafnframt að helsta breytingin á sýningunni frá því í fyrra væri sú, að í ár hafi borið meira á fyrirtækjum frá Bretlandi og Skandinavíu en færri frá Kína tóku þátt.

Sjávarútvegsráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson var aðalræðumaður á kynningarfundi sem bar yfirskriftina "Quality and responsibility all the way to market - Would you like to learn the secret?" en þar flutti ráðherra erindi um nýtingu sjávarafurða og ábyrgar fiskveiðar á Íslandi. Guðný Káradóttir, forstöðumaður sjávarútvegs og matvæla hjá Íslandsstofu, kynnti Iceland Responsible vottunarferlið og þær fisktegundir sem hafa verið vottaðar á Íslandi. Auk þess voru kynningar á framboði fisks frá Íslandi, búnaði og lausnum sem tryggja gæði hráefnisins, sem og flutninganeti til Norður Ameríku. Hér má sjá fulla dagskrá fundarins (enska).

Deila