Fjölmenni á íslensku viðskiptaþingi í Nýju Delí
Tilefnið var heimsókn utanríkisráðherra Guðlaugs Þórs Þórðarsonar til borgarinnar sem kom þangað með fyrsta beina flugi WOW air. Þar sem kastljósið beindist talsvert að Íslandi þessa daga var talið tilvalið að halda viðskiptaþing og draga fram helstu möguleika í viðskiptum Íslands og Indlands.
Fulltrúar 17 ferðaþjónustufyrirtækja og 6 annarra fyrirtækja tóku þátt í viðskiptasendinefnd ráðherra og gafst þannig kostur á að kynna starfsemi sína á þinginu. Samtals skipuðu rúmlega 40 einstaklingar sendinefndina.
Ráðherra ávarpaði þingið ásamt fulltrúum viðskiptaráðanna beggja, Íslensk-indverska og Indversk-íslenska. Íslandsstofa kynnti áfangastaðinn Ísland og greindi frá því hvað hægt væri að gera til að verða sérfræðingur í sölu á Íslandsferðum. Þá voru fluttar kynningar á möguleikum í matvælainnflutningi, á fiski, lambakjöti og öðrum matvælatengdum afurðum. Einnig sögðu hátæknifyrirtækin Marel og Össur frá inngöngu sinni á indverska markaðinn.
Þingið var mjög vel sótt, en tæplega 200 gestir lögðu leiðs sína bæði á þingið og á blaðamannafund WOW air sem haldinn var á undan þinginu.
Þau fyrirtæki sem tóku þátt frá Íslandi voru: Áltak, Ican, Innnes, Kjarnafæði, Marel og Tríton, en úr ferðageiranum voru það Ferðaþjónustan Álfheimar, GeoSea, Hótel Grímsborgir, Hótel Siglunes, Icelandair, Iceland Travel, Iceland Encounter, Iceland Europe Travel, Iceland Unlimited, Icextravel, Íslenskar ævintýraferðir, MUNDO, Prime Tours, Reykjavik Erupts, Sterna Travel, Time Tours og Tripical.
Um kvöldið bauð sendiherra Íslands á Indlandi, Guðmundur Árni Stefánsson, til móttöku á heimili sínu þar sem færi gafst til að styrkja tengslin sem mynduðust um daginn enn frekar.