Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
10. janúar 2019

Gestir Vakantiebeurs í Hollandi áhugasamir um Ísland

Gestir Vakantiebeurs í Hollandi áhugasamir um Ísland
Vakantiebeurs ferðakaupstefnan hófst í gær, 9. janúar í Utrecht í Hollandi. Líkt og undanfarin ár tekur Íslandsstofa þátt og að þessu sinni eru sex fyrirtæki á íslenska þjóðarbásnum: Icelandair, Iceland Travel, Nordic Travel, Smyril Line, Travel East og Wow Air, ásamt Markaðsstofu Norðurlands.

Vakantiebeurs er haldin árlega og er stærsta ferðasýningin á þessu markaðssvæði. Búist er við yfir 100 þúsund gestum þetta árið, bæði ferðaheildsölum sem og almennum gestum en sýningin er opin almenningi fjóra af þeim fimm dögum sem hún stendur yfir. 

Hollensku gestirnir eru afar jákvæðir í garð Íslands og sækja mikið í upplýsingar frá íslensku þátttakendunum. Áhersla okkar á ábyrga ferðahegðun vekur athygli og nálgunin með heitinu Icelandic Pledge þykir sniðug og skemmtileg. Hollendingar eru ánægðir með gott aðgengi að Íslandi og telja mikilvægt að hér séu tvö íslensk flugfélög sem bjóða upp á beint flug frá Amsterdam til Íslands allan ársins hring. Þeir sýna Íslandi og íslenskri náttúru jafnan mikinn áhuga og sækjast þá bæði í hin margrómuðu norðurljós og snjóinn, sem og hina löngu sumardaga. 


Deila