Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
1. júní 2018

Grein: Ímynd í takt við raunveruleikann

Grein: Ímynd í takt við raunveruleikann
Höfundur: Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður, ferðaþjónusta og skapandi greinar, Íslandsstofa.

Íslensk ferðaþjónusta byggir á því að ímynd Íslands sé jákvæð og í takti við raunveruleikann. Það er hins vegar ekki hagur ferðaþjónustunnar að ímynd landsins sé einsleit eða sett fram sem einhver glansmynd sem stenst ekki væntingar. Náttúra landsins, afþreying, saga, menning, hátíðir og listir eru allt þættir sem hafa aðdráttarafl og skapa landinu ákveðna ímynd erlendis.

Listafólk á borð við Björk, Ragnar Kjartansson, Arnald Indriðason, Yrsu Sigurðardóttir, hljómsveitina Kaleo og fleiri hafa sannarlega haft mikil áhrif á ímynd landsins. Verk þeirra hafa vakið forvitni um uppruna sköpunarkraftsins um allan heim. Íslenskir hönnuðir fá innblástur af Íslandi og nýta sér í hönnun sem fer um allan heim. Þá hafa íslenskar og erlendar kvikmyndir og sjónvarpsþættir varpað ljósi á land og þjóð og vakið áhuga rétt eins og hjá þeim fjölmörgu gestum sem hingað koma og segja sínar sögur og deila í gegnum samfélagsmiðla. Þá má ekki gleyma þætti íþrótta- og afreksfólk sem hefur einnig vakið aðdáun og forvitni umheimsins á landi og þjóð. Það eru margar sögur frá Íslandi sem veita innblástur og hafa á áhrif á fjölbreytta og jákvæða ímynd landsins á erlendum vettvangi.

Hjá Íslandsstofu höfum við lagt áherslu á að sýna sem fjölbreyttasta mynd af áfangastaðnum á ábyrgan hátt. Áhersluþættir í skilaboðum og sögum hafa byggst á ævintýrum, hreinleika, sjálfbærni, sköpunarkrafti, dulúð og menningu. Við höfum líka lagt áherslu á að hljómfall skilaboðanna sé að við séum sjálfum okkur trú, glaðleg, full af orku, gestrisin, komum á óvart og séum ábyrg. Það er einmitt ábyrgðin sem skiptir svo miklu máli í dag - að við sýnum ábyrgð í markaðssetningunni. Í því felst m.a. að hvetja ekki til óæskilegrar eða hættulegrar hegðunar í markaðs- og kynningarefni, líkt og myndum og myndböndum. Það er mikilvægt að miðla réttum skilaboðum til ferðamanna, og réttum upplýsingum til erlendra og innlendra hagsmunaaðila.

Það er mikilvægt að huga að þeim markmiðum sem sett hafa verið til þess að skapa hér sjálfbæran og öruggan áfangastað til framtíðar. Markmiðin snúa að því að draga úr árstíðasveiflu landshlutanna, , auka gjaldeyristekjur, viðhalda viðhorfi og vitund um Ísland sem heilsársáfangastað, viðhalda ánægju ferðamanna, hvetja til ábyrgrar ferðahegðun og huga að viðhorfi Íslendinga til ferðaþjónustunnar svo bæði atvinnugreinin og áfangastaðurinn þróist í sátt og samlyndi Íslendinga og þeirra ferðamanna sem sækja okkur heim.

Á árinu 2017 gaf Íslandsstofa út markhópagreiningu fyrir áfangastaðinn sem gerð var á sjö markaðssvæðum í samstarfi við Háskólann á Akureyri og Háskólann á Bifröst. Þrír markhópar í þessum löndum eru taldir vera ákjósanlegastir. Allir hóparnir eiga það sameiginlegt að innihalda fólk með hærri tekjur sem ferðast oft, leitar eftir nýjum upplifunum og áfangastöðum, vill mynda tengsl við menningu og heimafólki og ber virðingu fyrir umhverfinu. Þessir markhópar byggja einnig á því að þeir vilja fá einstakar upplifanir og vinalegt viðmót. Þetta hefur ferðaþjónustan getað staðið við hingað til og skapandi greinar taka svo sannarlega þátt í því líka.

Íslandsstofa stendur fyrir opnum fundi og vinnustofu um menningarlandið Ísland þann 7. júní þar sem ætlunin er að skoða og kortleggja tækifæri sem tengjast menningarferðaþjónustu á Íslandi. Við hvetjum áhugasama til að taka þátt.

Það er okkar von að ímynd Íslands erlendis verði áfram fjölbreytt og eftirsóknarverð, og í takti við raunveruleikann. Við hlökkum til að starfa áfram með ferðaþjónustunni og listum og skapandi greinum að því að byggja hana upp til framtíðar.

Deila