Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
19. júní 2012

Gull í Cannes!

Gull í Cannes!
Markaðsátakið Inspired by Iceland hlýtur Ljónið, hin eftirsóttu gullverðlaun auglýsingahátíðarinnar í Cannes, fyrir besta notkun almenningstengsla í auglýsingaherferð á árinu 2011.

Verðlaunin eru veitt fyrir heimboð Íslendinga, sem voru liður í haustátaki Inspired by Iceland. Íslendingar voru hvattir til þess að mynda persónuleg kynni við ferðamenn. Fjölmargir Íslendingar tóku þátt í verkefninu með því að bjóða erlendum ferðamönnum að sækja sig heim, eða taka þátt í daglegu lífi Íslendinga með öðrum hætti. Þeirra á meðal voru Jón Gnarr Borgarstjóri Reykjavíkur og Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra, auk forsetahjónanna sem buðu upp á pönnukökur á Bessastöðum.

„Þetta er í fyrsta skipti sem íslensk auglýsingastofa vinnur til verðlauna á hátíðinni og er þetta einn stærsti heiður sem auglýsingastofa getur fengið fyrir sína vinnu.“ segir Kristján Schram hjá Íslensku auglýsingastofunni sem sá um framleiðslu efnis fyrir haustátakið. Auglýsingahátíðin í Cannes er stærsta fagverðlaunahátíð auglýsingabransans, en hátíðin hefur verið haldin árlega síðan 1954. Um 30.000 auglýsingar og herferðir taka þátt í  hátíðinni.
Heimboð Íslendinga vöktu mikla athygli og sköpuðu gríðarlega umfjöllun um land og þjóð í erlendum fjölmiðlum síðastliðinn vetur. Heimboðin voru liður í verkefninu "Ísland - allt árið", en markmið þess er að efla ímynd Íslands sem áfangastaðar og fjölga erlendum ferðamönnum utan háannar. Rúmlega 130 aðilar í íslensku atvinnulífi taka þátt í verkefninu. 
 
 
„Við þökkum þeim fjölmörgu Íslendingum sem tóku þátt í heimboðunum og buðu í allskyns afþreyingu. Það er alveg ljóst að svona árangur næst ekki nema með samstilltu átaki allra hagsmunaðila og þeirra fyrirtækja sem að átakinu koma. Þetta er mikil viðurkenning fyrir markaðsstarfið og er vonandi hvatning fyrir íslenska þátttakendur að halda áfram á sömu braut.“ segir Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður markaðssóknar Íslandsstofu sem annast framkvæmd átaksins.
 
 

Um „Ísland – allt árið“

„Ísland - allt árið“ er samstarfsverkefni opinberra aðila, einkaaðila og sveitastjórna en unnið er með vörumerkið Inspired by Iceland í markaðssetningu. Tilgangur verkefnisins er að að jafna árstíðarsveiflu í komu ferðamanna og þannig skapa ný störf og auka arðsemi af greininni. Lögð er áhersla á að kynna Ísland sem áfangastað allt árið.
Íslandsstofa annast framkvæmd verkefnisins, sem er undir stjórn iðnaðarráðuneytisins, fjármálaráðuneytis, Icelandair, Reykjavíkurborgar, Samtaka ferðaþjónstunnar, Iceland Express, ISAVIA, Samtaka verslunar og þjónustu og Landsbankans. Rúmlega 130 fyrirtæki eru þátttakendur í verkefninu.
 
Frekari upplýsingar veitir Inga Hlín Pálsdóttir í síma 824 4375
 

Deila