Gullkarfinn heillar þýska neytendur
![Gullkarfinn heillar þýska neytendur](/media/1/20190119_114924_crop_2.jpg)
Iceland Responsible Fisheries (IRF) var í samstarfi við Fisch-Informationszentrum (FIZ) á sýningunni og deildi bás með stofnuninni, sem hefur það markmið að stuðla að aukinni fiskneyslu í Þýskalandi. Þetta er í fjórða skipti sem IRF tekur þátt í Grüne Woche í samstarfi við FIZ.
Gullkarfa frá Íslandi var stillt upp í fiskborði og fiskurinn kynntur undir merkjum IRF og gátu gestir einnig fengið að smakka pönnusteiktan gullkarfa. Á meðal þeirra sem gæddu sér á karfanum var Julia Klöckner, landbúnaðarráðherra Þýskalands, en hún heimsótti básinn á fyrsta degi sýningarinnar ásamt miklum fjölda fjölmiðlafólks.
Fulltrúi IRF/ Íslandsstofu dreifði kynningarefni um íslenskt sjávarfang og áfangastaðinn Ísland. Þá gafst gestum sem heimsóttu básinn tækifæri á að taka þátt í getraunleik og vinna „Íslandskvöldverð“ á Michelin veitingastaðnum FACIL í Berlín.
Framleiðendur frá öllum heimshornum kynna afurðir sínar á Grüne Woche og eru sýnendur um 1.500 frá 65 löndum. Áætlað er að um 380.000 manns sæki sýninguna að jafnaði, mest almennir gestir en þar á meðal eru um 85 þúsund fagaðilar. Sýningin stendur yfir í 10 daga, eða frá 18.- 27. janúar.