Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
25. september 2017

Hafsteinn Ólafsson valinn Kokkur ársins

Hafsteinn Ólafsson valinn Kokkur ársins
Síðastliðinn laugardag var Hafsteinn Ólafsson, kokkur á Sumac Grill + Drinks, valinn Kokkur ársins 2017.

Síðastliðinn laugardag var Hafsteinn Ólafsson, kokkur á Sumac Grill + Drinks, valinn Kokkur ársins 2017. Tólf kokkar tóku þátt í forkeppninni sem haldin var 18. september og komust fimm áfram í lokakeppnina. Ásamt Hafsteini kepptu til úrslita þeir Víðir Erlingsson (Bláa lónið), Rúnar Pierre Heriveaux (Grillið Hótel Saga), Garðar Kári Garðarsson (Deplar Farm/Strikið) og Bjarni Viðar Þorsteinsson (Sjávargrillið). Garðar Kári hreppti annað sætið og Víðir Erlingsson það þriðja.

Keppnin Kokkur ársins og Kokkalandsliðið eru stærstu verkefni Klúbbs matreiðslumeistara og er þar unnið mikilvægt starf. Íslandsstofa er bakhjarl Kokkalandsliðsins og hefur átt farsælt samstarf með kokkunum í fjölmörgum verkefnum sem snúa að kynningu á íslenskum matvælum og matarmenningu á erlendum mörkuðum, en þar leika fagaðilar eins og kokkar mikilvægt hlutverk. Íslandsstofa notaði tækifærið og bauð matarbloggurum, eða svokölluðum áhrifavöldum, frá Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi á keppnina og í heimsóknir til matvælaframleiðenda.

Lokakeppnin var haldin í Hörpu, þar sem keppendur unnu hörðum höndum að undirbúningi yfir daginn. Samhliða lokaspretti keppninnar á laugardagskvöld, var haldin glæsileg veisla þar sem Kokkalandsliðið matreiddi fyrir gesti. Ellefu manna dómnefnd mat frammistöðu keppenda og var yfirdómarinn Krister Dahl frá Svíþjóð, sem er margverðlaunaður í keppnismatreiðslu og stýrir m.a. Michelinveitingastaðnum Upper House í Gautaborg. „Ég verð að hrósa þessum ungu íslensku kokkum fyrir þeirra framlag og er sérstaklega hrifinn af sigurvegaranum, sem kom og heillaði dómnefndina með sínum flotta mat og faglegu vinnubrögðum. Ísland er svo sannarlega komið á kortið sem hágæða matarland og íslenskir kokkar standa sig afar vel í alþjóðlegum samanburði t.d. í alþjóðlegum matreiðslukeppnum“ sagði Krister eftir keppnina.

Deila