Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
3. október 2021

Heiðursverðlaun fyrir frumkvöðlastarf í ferðaþjónustu

Heiðursverðlaun fyrir frumkvöðlastarf í ferðaþjónustu
Á myndinni eru Dr. Friðrik Larsen, Ólafur Hrafn Steinarsson, Þórunn Pétursdóttir og Gunnar Björnsson. Ása L. Aradóttir átti því miður ekki heimangengt.

Það er að lifna yfir ráðstefnumarkaðnum á Íslandi á ný. Á fundi sem bar nafnið MICE-LAND 2021 og fór fram í Hörpu kom það skýrt fram en þar var rætt um tækifærin sem eru í ráðstefnu-, viðburða- og hvataferðaþjónustu á Íslandi á næstu árum. Fimm frumkvöðlar fengu heiðursverðlaun fyrir óeigingjarnt starf á liðnum árum sem hefur leitt til þess að stór verkefni hafa ratað hingað til lands.

Heiðursverðlaunin árið 2021 hljóta eftirfarandi:

  • Friðrik Larsen, Forstjóri Brandr vegna CHARGE Energy Branding Conference sem haldin hefur verið hér á landi árlega frá árinu 2016.

  • Gunnar Björnsson forseti Skáksamband Íslands sem hefur verið í forsvari fyrir alþjóðlega skákmótið Reykjavík Open síðan 1964.

  • Þórunn Pétursdóttir, landgræðsluvistfræðingur hjá Landgræðslu ríkisins og Ása L. Aradóttir, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands sem voru í forsvari fyrir European Conference of Ecological Restoration sem fór fram hér á landi 2018.

  • Ólafur Hrafn Steinarsson, formaður Rafíþróttasamband Íslands sem gegndi lykilhlutverki við fá League of Legends Mid-Season Invitational og The VALORANT Champions Tour Masters í maí 2021 til landsins. 

Hægt er að horfa á kynningu á heiðursgestgjöfum Meet in Reykjavík hér

Ný aðferðafræði sem hámarkar jákvæð áhrif á alþjóðlegt ráðstefnu- og fundarhald

Meet in Reykjavík stóð fyrir vinnustofu og örráðstefnu í Hörpu um MICE-ferðaþjónustu hér á landi í samstarfi við SAF þann 29. september sl. Vinnustofan fór fram í Eyri og tóku 45 manns frá 31 fyrirtæki þátt sem hafa hagsmuni af MICE ferðaþjónustu.  

Að vinnustofu lokinni var boðið til fundar í Silfurbergi þar sem um 200 gestir mættu. Anniku Rømer, forstöðumaður hjá „Copenhagen Legacy Lab“ var aðalfyrirlesari dagsins. Hún fræddi gesti um nýja aðferðafræði sem innleidd hefur verið í Kaupmannahöfn og hefur það markmið að hámarka jákvæð áhrif á alþjóðlegt ráðstefnu- og fundarhald með sjálfbærni að leiðarljósi. Hingað til hefur ábati af ráðstefnu- og fundarhaldi fyrst og fremst verið mældur í fjölda gesta, tekjum eða gistinóttum, en í Kaupmannahöfn er ekki síður verið að leggja mat á t.d. umhverfisáhrif, þekkingu sem verður eftir á áfangastaðnum, nýsköpunarverkefni sem verða til, áhrif á ímynd áfangastaðarins o.fl.  

Heimsmeistaramót League of Legends framundan

Samanlagt hafa mótin sem fram fóru síðastliðið vor tryggt Íslandi yfir 20.000 gistinætur, verðmætar gjaldeyristekjur og umtalsverða athygli. Áætlað er að yfir 100 milljón manns hafi horft á tölvuleikjamótin og fram undan er svo heimsmeistaramótið í League of Legends sem fer fram í Reykjavík í október og nóvember og búist er við að fái enn meira áhorf. Það munar um minna á krefjandi tímum í íslenskri ferðaþjónustu.

Meet in Reykjavik og Samtök ferðaþjónustunnar stóðu að veitingu verðlaunanna. Meet in Reykjavík vinnur við að markaðssetja Ísland sem áfangastað fyrir ráðstefnur, fundi, hvataferðir og viðburði á erlendum mörkuðum. Meet in Reykjavík er rekin innan veggja Íslandsstofu.  

Sjá má nokkrar myndir frá viðburðinum hér að neðan. Allar ljósmyndir frá MICE-LAND 2021 má finna hér 


Deila