Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
8. ágúst 2017

HM íslenska hestsins haldið 7.-13. ágúst

HM íslenska hestsins haldið 7.-13. ágúst
Íslandsstofa hefur umsjón með kynningu á Horses of Iceland í svokölluðu Íslandstjaldi þar sem íslenskir aðilar eru með sýningaraðstöðu. Heimsmeistaramótið er einn stærsti vettvangur íslenska hestsins um heim allan. Nítján þjóðir hafa keppnisrétt á mótinu og má búast við miklum fjölda gesta þá sjö daga sem það stendur yfir.

Heimsmeistaramót íslenska hestsins stendur yfir dagana 7.-13. ágúst í Oirschot í Hollandi. Markaðsverkefnið  Horses of Iceland (HOI) verður á svæðinu með kynningu á verkefninu, áherslum, markaðsefni og tækifærum fyrir erlenda aðila að taka þátt. Búist er við miklum fjölda Íslandshestaunnenda á mótið.

Íslandsstofa hefur umsjón með kynningu í svokölluðu Íslandstjaldi (D23) þar sem markaðsverkefnið er kynnt og samstarfsaðilar í verkefninu fá tækifæri til að dreifa efni og upplýsingum um starfsemi sína. Nokkrir íslenskir aðilar, þ.m.t. Landsmót 2018, eru einnig með sýningaraðstöðu í tjaldinu sem er staðsett á markaðssvæði mótsins. Tjaldið er vel merkt, bæði að utan og innan, Horses of Iceland. Þar verður fólki boðið að horfa á 360° kvikmynd af íslenska hestinum, kynningarmyndbönd um íslenska hestinn, bæklingar og póstkort liggja frammi, leikhorn fyrir börnin, matarsmakk og lifandi tónlist. Á föstudeginum 11. ágúst kl. 18 er móttaka í tjaldinu þar sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verður heiðursgestur.

Heimsmeistaramótið er einn stærsti vettvangur íslenska hestsins um heim allan. Nítján þjóðir hafa keppnisrétt á mótinu og má búast við miklum fjölda gesta þá sjö daga sem það stendur yfir. Þetta er í annað sinn sem Heimsmeistaramótið er haldið í Oirschot. 

Tilgangur markaðsverkefnisins HOI er að byggja upp orðspor íslenska hestsins um heim allan til að leggja grunn að aukinni verðmætasköpun og útbreiðslu hestsins á heimsvísu. Um er að ræða samstarf aðila í hestatengdri starfsemi sem aðilum um heim allan stendur til boða að gerast aðili að. Um 60 þátttakendur eru í verkefninu, fyrirtæki, samtök og félög, þ.m.t. FHB, LH, sem og íslenska ríkið. Erlendir aðilar taka einnig þátt enda er um alþjóðlegt verkefni að ræða.  Sjá nánar á vef verkefnisins en hann er nú á íslensku, ensku, sænsku og þýsku.

Nánari upplýsingar veita Þórdís Anna Gylfadóttir, verkefnisstjóri HOI, thordis@islandsstofa.is og Berglind Steindórsdóttir, sýningarstjóri hjá Íslandsstofu, berglind@islandsstofa.is, sími 511 4000.

Vefsíða Heimsmeistaramótsins.

Deila