Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
18. desember 2020

Hönnunarteymið B&A&R&J valið til að hanna hönnunarkerfi fyrir Íslandsstofu

Hönnunarteymið B&A&R&J valið til að hanna hönnunarkerfi fyrir Íslandsstofu
Hönnunarteymið B&A&R&J: Baldur Helgi Snorrason, arkitekt, Jón Helgi Hólmgeirsson, vöru-og samspilshönnuði (e. Interaction design), Adrian Freyr Rodriguez verkfræðingur og Ragnar Már Nikulásson, grafískur hönnuður og myndlistamaður. Á myndina vantar ráðgjafa teymisins, Björn Steinar Blumenstein vöruhönnuð.

Íslandsstofa auglýsti, í samstarfi við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, eftir að hönnuði eða hönnunarteymi til að leiða vinnu við gerð hönnunarkerfis fyrir samræmt útlit sýningarbása á vegum Íslandsstofu. Alls bárust 10 sterkar umsóknir um verkefnið og eftir valferli var ákveðið að bjóða hönnunarteyminu B&A&R&J verkefnið.

Teymið er skipað þeim Baldri Helga Snorrasyni arkitekt, Jóni Helga Hólmgeirssyni,vöru-og samspilshönnuði (e. Interaction design), Adrian Freyr Rodriguez verkfræðingi og Ragnari Má Nikulássyni, grafískum hönnuði og myndlistamanni. Ráðgjafi teymisins er Björn Steinar Blumenstein vöruhönnuður.

„Við erum hrikalega spenntir að vinna að þessu verkefni með Íslandsstofu. Þetta er náttúrulega mikil áskorun þar sem að hönnunarkerfi af þessu tagi þarf að geta aðlagast gríðarlega fjöbreyttum aðstæðum, það mun þó án efa fæða af sér áhugaverðar lausnir. Þetta er mikill heiður og við hlökkum til samstarfsins við Íslandsstofu.“
Hönnunarteymið B&A&R&J

Markmið verkefnisins er að skapa heildræna umgjörð utan um framsetningu sýningarsvæða Íslandsstofu, þvert á áherslur Íslandsstofu í erlendu markaðs- og kynningarstarfi eins og þær eru settar fram í stefnumótun fyrir íslenskar útflutningsgreinar. Þá er einnig mikilvægt að hönnunin sé í samræmi við, og fari vel með, vörumerkjakerfi íslenskra útflutningsgreina. Lestu meira hér.

Við þökkum öllum sem sendu inn umsóknir og óskum hönnunarteyminu B&A&R&J til hamingju. 

Í valnefnd sátu Sveinn Birk­ir Björns­son, forstöðumaður markaðssamskipta hjá Íslandsstofu, Margrét Helga Jóhannsdóttir, fagstjóri sýninga hjá Íslandsstofu, Rósa Hrund Kristjánsdóttir, Creative director, Hvíta húsið, Ómar Sigurbergsson, innanhússarkitekt, Funkis og Helgi Steinar Helgason, arkitekt, Tvíhorf.


Deila