Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
16. október 2018

Horses of Iceland á Íslensku landbúnaðarsýningunni

Horses of Iceland á Íslensku landbúnaðarsýningunni
Horses of Iceland tók þátt í sýningunni Íslenskur Landbúnaður 2018 sem haldin var í Laugardalshöll helgina 12.- 14. október sl.

Um 100.000 gestir heimsóttu sýninguna, jafnt borgarbörn sem bændur. Almenn ánægja var með sýninguna sem þótti vel heppnuð og sýndi vel þann fjölbreytileika sem einkennir nú íslenskan landbúnað.

Horses of Iceland (HOI) var með sýningarbás sem skartaði stórri mynd sem sýndi útbreiðslu íslenska hestsins í heiminum, 360° myndböndum og öðru kynningarefni frá HOI og samstarfsaðilum. Unga kynslóðin kunni sérstaklega vel að meta 360° gleraugun, og að fá að gjöf plakat með mynd af íslenskum hestum. Gestirnir voru mjög áhugasamir um að kynna sér útbreiðslu íslenska hestsins í heiminum, en rúmlega 270.000 hestar eru skráðir í gagnagrunninum WorldFengur. Þá var Guðný Káradóttir, forstöðumaður matvæla, sjávarútvegs og landbúnaðar hjá Íslandsstofu með fyrirlestur um íslenska hestinn á sunnudeginum, samhliða sýningunni.

Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra Kína kom í heimsókn á sýninguna ásamt sendinefnd en það var Kristjón Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem leiddi ráðherra og fylgdarlið um sýninguna. Hópurinn staldraði við hjá Horses of Iceland og þáði efni á kínversku um íslenska hestinn. Voru þeir áhugasamir um að kynna sér hestinn, en verið er að skoða möguleikann á að flytja íslenska hesta til Kína.

Framkvæmdastjóri sýningarinnar, Ólafur M. Jóhannesson var sérstaklega ánægður með fjölda gesta og hve jákvæðir þeir voru. Hann komst vel að orði þegar hann lýsti íslenskum landbúnaði og sagði „við búum í landi hreinleika og fegurðar og það eru bændurnir sem eru gæslumenn landsins“.


Deila