Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
19. mars 2020

Hross bólusett gegn sumarexemi flutt úr landi

Hross bólusett gegn sumarexemi flutt úr landi
Eftir 20 ára rannsóknarvinnu hafa íslenskir og erlendir vísindamenn þróað bóluefni við sumarexemi sem hrjáir marga íslenska hesta erlendis. Lokahnykkur rannsóknarinnar hófst 16. mars sl. þegar 27 bólusettir hestar voru fluttir úr landi.

Hópur íslenskra hesta var fluttur út til svokallaðra „flugusvæða“ í Evrópu, 25 til Sviss og tveir til Suður-Þýskalands. Þetta er lokahnykkur rannsóknar Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, Háskólans í Bern og annarra samstarfsaðila á sumarexemi í íslenskum hestum. 

Sumarexem er ofnæmi gegn próteinum úr munnvatnskirtlum bitflugna sem lifa ekki á Íslandi. Tíðni hefur verið mjög há í útfluttum íslenskum hestum, allt að 50% á slæmum flugusvæðum. Exemið veldur óþægindum og vanlíðan og hefur reynst mikið vandamál í íslenskum hrossaútflutningi.

„Sumarexem í hrossum fluttum frá Íslandi er og hefur verið mikið velferðarmál þó að það hafi verið mismikið eftir svæðum og aðstæðum. En þegar verst lætur þarfnast hrossin mikillar umönnunar og líður hreint ekki vel,“ segir Sveinn Steinarsson, formaður Félags íslenskra hrossabænda. „Auðvitað þekkir fólk erlendis sífellt betur hvernig er best að meðhöndla exemið og haga hrossahaldinu, en því fylgir oft mikil aukavinna og kostnaður. Því er mikilvægt að lausn sé framundan. Allir sem hafa komið að þeirri vinnu að hægt verði að bólusetja hrossin gegn exemi, binda miklar vonir við að bóluefnið, og að hægt verði að forverja hrossin sem flutt eru úr landi þannig að þau verði að minnsta kosti jafnsett þeim íslensku hrossum sem fæðast erlendis hvað sumarexemið varðar. Góð niðurstaða úr þessari rannsókn mun umfram allt bæta líðan íslenskra hrossa erlendis og eins mun góð niðurstaða hjálpa mikið til við markaðsettningu og sölu á hrossum frá Íslandi. Á því er engin vafi í mínum huga.“ 

Lesa nánar á vefsíðu Horses of Iceland


Deila