Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
12. nóvember 2013

Í Portúgal er lífið líka saltfiskur

Í Portúgal er lífið líka saltfiskur
Dagana 6. og 7. nóvember fór fram kynning á íslenskum saltfiski í Lissabon í Portúgal. Kynningin er liður í markaðssamstarfi framleiðenda og útflytjenda á saltfiskafurðum sem Íslandsstofa stýrir en stjórnvöld koma einnig að verkefninu.

Dagana 6. og 7. nóvember fór fram kynning á íslenskum saltfiski í Lissabon í Portúgal. Kynningin er liður í markaðssamstarfi framleiðenda og útflytjenda á saltfiskafurðum sem Íslandsstofa stýrir en stjórnvöld koma einnig að verkefninu. Áhersla var lögð á kynningu fyrir fjölmiðla og að ná til almennings i gegnum vef- og samfélagsmiðla.

Eldhúsið, sem Íslandsstofa hefur notað með góðum árangri í sínu markaðsstarfi, var staðstett við aðallestarstöðina í Lissabon, á EXPO svæðinu og þar var almenningi boðið upp á að smakka gæðasaltfiskrétti úr úrvalshráefni frá Íslandi, matreidda á portúgalska vísu. Blaðamönnum og  matarbloggurum var boðið í Eldhúsið þar sem þeir fengu kynningu á íslenskum sjávarútvegi og íslenskum saltfiskafurðum.

Málsvarar frá öflugum portúgölskum fyrirtækjum sem kaupa íslenskan saltfisk tóku þátt í kynningum og var framlag þeirra mjög mikilvægt því þeir töluðu mjög vel um íslenska saltfiskinn og gæði hans umfram annan fisk á markaðnum. Axel Nikulásson sendiráðunautur í London (Portúgal heyrir undir Íslenska sendráðið í London) og Helena Dundas konsúll í Lissabon voru einnig þátttakendur í kynningunum. Eftir kynninguna var farið á veitingastað í miðborg Lissabon þar sem fulltrúum fjölmiðla gafst tækifæri að bragða á mismunandi saltfiskréttum sem allir voru úr íslensku hráefni.

Fjölmiðlafólkið sýndi Íslandi mikla og jákvæða athygli, sérstaklega íslenska saltfiskinum, en einnig var mikið spurt um efnahagsmál og ferðaþjónustu á Íslandi. Portúgalir eru stærstu neytendur á saltfiski í heiminum og er neysla á saltfiski stöðug allt árið en nær hápunkti um jólin. Í Portúgal er saltfiskur meira en matur en sagt er að það séu til meira en þúsund saltfiskuppskriftir í Portúgal. Það má því segja að gamla íslenska orðatiltækið „Lífið er saltfiskur“ eigi svo sannarlega vel við í Portúgal.

Það eru 26 íslensk fyrirtæki sem hafa sameinast um að kynna íslenskar saltfiskafurðir í S-Evrópu undir kjörorðinu "Taste and share the secret of Icelandic Bacalao". Mikil áhersla er lögð á gæði og uppruna vörunnar og er íslenska þorpið notað sem „rödd“ í kynningunni. Verkefnið nýtir markvisst vef- og samfélagsmiðla og getur almenningur tekið þátt í uppskriftasamkeppni þar sem ferð til Íslands og íslenskur saltfiskur eru á meðal vinninga.

Hér má sjá vefsíðu fyrir verkefnið á portúgölsku - og hér að neðan má finna tengla inn á samfélagsmiðla verkefnisins í Portúgal:

Facebook

Youtube

Twitter
Nánari upplýsingar um verkefnið veita:
Guðný Káradóttir, gudny@islandsstofa.is, sími 511 4000
Björgvin Þór Björgvinsson, bjorgvin@islandsstofa.is, sími 511 4000

Hér að neðan má sjá myndir frá Lissabon

 

Deila