Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
10. maí 2014

Inspired by Iceland er kennslubókardæmi

Inspired by Iceland er kennslubókardæmi
Inspired by Iceland verður notað sem dæmi í 15. útgáfu af kennslubókinni Marketing Management eftir þá Philip Kotler og Kevin Lane Keller.

Inspired by Iceland verður notað sem dæmi í 15. útgáfu af kennslubókinni Marketing Management eftir þá Philip Kotler og Kevin Lane Keller. Bókin kemur út hjá fyrirtækinu Pearson Inc. nú í haust, en fyrsta útgáfa bókarinnar kom út árið 1967. Hún hefur frá fyrstu útgáfu verið talin ein af bestu kennslubókum markaðsfræðinnar og fanga þróun í markaðsfræðum og framkvæmd á hverjum tíma. Bókin er kennd víðsvegar um heim og er iðulega fjallað um stærstu vörumerki heims í bókinni s.s. Apple, Microsoft, Nike og Coca Cola. Bókin er m.a. kennd í háskólum á Íslandi.

Í bókinni verður fjallað um markaðssetningu Inspired by Iceland og hvernig samþætting skilaboða hefur slagkraft í markaðssetningu. Markaðsátakið fór af af stað árið 2010 og í framhaldi af því hafa áherslur í markaðssetningu og landkynningu Íslands breyst. Áður var unnið meira eftir mismunandi mörkuðum og þörfum þeirra en í dag er um samþætta  markaðssetningu að ræða með sömu skilaboð í öllum miðlum og mörkuðum, hvort sem er í almannatengslum, auglýsingum, samfélagsmiðlum, vefsíðum eða viðburðum. Þetta er talið hafa skapað þann slagkraft sem hefur átt þátt í að vekja þá athygli sem Ísland hefur fengið sem áfangastaður.

Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður hjá Íslandsstofu er afar ánægð og stolt af því að fjallað sé um Inspired by Iceland í bókinni. „Sú staðreynd að fjallað er um Inspired by Iceland á sama tíma og verið er að fjalla um bestu markaðssetninguna í heiminum í dag er afar mikil viðurkenning. Við erum einnig afar spennt yfir þeirri miklu landkynningu sem er fólgin í því að vera í bókinni. Viðskiptafólk og nemendur á öllum aldri um heim allan munu lesa sér til og vera minntir á Ísland. Ég sjálf nýti mér þessa bók iðulega í mínum störfum og verður ekki slæmt að vera minntur á starfið okkar í næstu bók. Það er einnig viðurkenning fyrir Inspired by Iceland að þarna er verið að fjalla um markaðssetningu áfangastaðar en ekki hina venjulegu vöru og fyrirtæki eins og við þekkjum úr markaðsfræðunum.“

Deila