Ísland hlýtur verðlaun National Geographic í Rússlandi
Sendiherra Íslands í Rússlandi, Berglind Ásgeirsdóttir, tók við verðlaunum sem voru afhent af einum þekktasta geimfara Rússa, Sergey Ryazanskiy en hann hefur dvalið yfir 300 daga úti í geimnum. Í þakkarræðu sinni rifjaði sendiherrann upp þá skemmtilegu staðreynd að fyrstu mennirnir sem fóru til tunglsins æfðu meðal annars á Íslandi fyrir ferðina.
Tímaritið National Geographic í Rússlandi veitir árlega verðlaun í nokkrum flokkum og byggir valið á rafrænni kosningu lesenda tímaritsins, en að þessu sinni tóku 270 þúsund lesendur þátt.
Árið 2016 hlaut Ísland einnig verðlaun National Geographic en fékk þá viðurkenningu fyrir sjálfbæra ferðamennsku.