Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
26. janúar 2011

Ísland í kastljósinu í Stuttgart

Ísland var í kastljósinu sem annað tveggja gestalanda á ferðasýningunni CMT í Stuttgart, sem lauk um síðustu helgi. CMT er stærsta ferðasýning í Evrópu fyrir almenning og voru gestir að þessu sinni um 225 þúsund talsins.

„Þetta var vissulega óvænt en að sama skapi vel þegið tækifæri til að fylgja eftir góðum árangri og vexti í sölu Íslandsferða á þýska markaðinum síðustu misserin,“ segir Davíð Jóhannsson, svæðisstjóri Íslandsstofu í Mið-Evrópu, sem hafði umsjón með þátttökunni fyrir hönd Íslands.

Á íslenska sýningarbásnum sem var á lykilstað kynntu 14 fyrirtæki, aðallega þýskir ferðaheildsalar sem leggja áherslu á Ísland, vöruframboð sitt. Á básnum var selt íslenskt gómsæti, s.s. lax, lambakjöt og pönnukökur, og tónlistarmenn frá Íslandi skemmtu gestum. Opinber fulltrúi Íslands við opnunarathöfnina í fjarveru ráðherra ferðamála var Gunnar Snorri Gunnarsson, sendiherra í Berlín.

„Það er mikils virði að vinna úr þeirri athygli sem við höfum óneitanlega vakið og geta breytt forvitni í áhuga,“ segir Davíð. „Þessi vegferð er einnig ákveðin viðurkenning við okkur sem ferðamannaland og þá kynningarstarfsemi sem haldið er úti á þessum markaði. Sýningarþátttökunni fylgdi geysilega mikil fjölmiðlaumfjöllun og hún á örugglega eftir að skila sér á þessu svæði sem er eitt af þeim efnahagslega sterkustu í Þýskalandi. Í sumar munu tvö þýsk félög fljúga beint frá Stuttgart til Íslands og flugvöllurinn í Frankfurt, sem Icelandair flýgur á allt árið um kring, er einungis í rúmlega klukkustundar fjarlægð frá Stuttgart með lest.“

Deila