Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
10. maí 2018

Íslandshestamennska í sókn á heimsvísu

Íslandshestamennska í sókn á heimsvísu
Horses of Iceland tók þátt í að skipuleggja Hestadaga sem voru haldnir dagana 28. apríl til 1. maí sl. um land allt.

Fjölbreytt dagskrá var í boði, viðburðir á borð við Æskan og hesturinn, skrúðreið í gegnum miðborg Reykjavíkur og Dagur íslenska hestsins á heimsvísu.

Skrúðreiðin sem fór fram laugardaginn 28. apríl var fjölmenn og fengu reiðmenn gott veður. Hópurinn safnaðist saman fyrir framan Hallgrímskirkju þar sem borgarstjórinn hélt ávarp og hestamenn og fjöldi gesta hlýddi á kórsöng. Fjallkonan leiddi skrúðreiðina niður Skólavörðustíginn undir fánaborg í fylgd hestvagna og reiðmanna frá ýmsum hestamannafélögum. Reiðin endaði á Austurvelli þar sem fólki gafst tækifæri á að klappa hestunum og spjalla við knapana. Mikil stemming var í hópnum sem gerði það að verkum að dagurinn var mjög vel heppnaður. 

Góð þátttaka á heimsvísu

Dagur íslenska hestsins var haldinn hátíðlegur um allan heim 1. maí, en íslensk hestamannafélög er nú að finna í tuttugu og einu landi. Eigendur íslenska hestsins víðsvegar um heiminn gerðu sér glaðan dag og víða voru hestamenn með opið hús og buðu í útreiðartúra.       

Markmiðið var að kynna hestinn og hestamennsku fyrir almenningi með þessum hætti er opna fleira fólki sýn inn í samfélagið sem skapast í kringum íslenska hestinn, njóta dagsins og slá á létta strengi. Fólk deildi síðan upplifun sinni á samfélagsmiðlunum með myllumerkinu #horsesoficeland. Mörg hestamannafélög héldu flottar sýningar þar sem ungir sem aldir tóku þátt í og fengu að njóta sín. Þessi dagur er sífellt að stækka og frábært að sjá hversu margir eru að nýta sér þetta tækifæri til að kynna hestinn og eiginleika hans.


Landsmót hestamanna 2018

Einn af stærstu viðburðunum sem Horses of Iceland tekur þátt í árið 2018 er Landsmót í Reykjavík sem fram fer dagana 1.- 8.júlí. Um er að ræða einn af stærstu viðburðum innan Íslandshestamennskunnar og einn stærsta íþróttaviðburð sem haldinn er hérlendis. Mótið er haldið á tveggja ára fresti. Upplýsingar um dagskrá mótsins má sjá hér

Áætlaður fjöldi gesta á mótinu í sumar er ca.10.000 manns, þar af eru ca. 2-3.000 manns erlendis frá eða ca.25% af gestum mótsins. Horses of Iceland verður með fjölbreytta dagskrá í sér tjaldi á mótinu, bjóða upp á fróðleik og fyrirlestra, kvikmyndasýningar, 360°video, kynningarefni o.fl. Þá munu samstarfsaðilar (samtök, fyrirtæki í ræktun, útflutningi, ferðaþjónustu og framleiðendur á vörum fyrir hesta og  hestamenn) taka þátt í dagskránni. Mismunandi aldurshópar og fólk með ólík áhugasvið tengd hestinum, ætti að finna eitthvað við sitt hæfi. Við hlökkum til að sjá ykkur á Landsmóti!

Hér að neðan má sjá skemmtilegar myndir frá Hestadögum og Degi íslenska hestsins.

Deila