Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
21. maí 2012

Íslandskynning í Prag

Í tilefni af opinberri heimsókn forseta Íslands til Prag gekkst Íslandsstofa fyrir Íslandskynningu og vinnustofu þar í borg s.l föstudag. 

Utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, opnaði kynninguna með hnyttnu ávarpi og því næst kynnti Þorleifur Þór Jónsson frá Íslandsstofu möguleika Íslands sem ferðamannalands allt árið. Einnig voru nýjustu þættir í landkynningarverkefninu Ísland - allt árið kynntir.

Þá tók við vinnustofa þar sem íslensku fyrirtækin Iceland Express, FI Travel, Mountaineers, Icelandair Hótel Klaustur, Iceland Unlimited, Iceland Congress, Guðmundur Jónasson Travel, Iceland Excursions, Reykjavík Excursion, Hótel Rangá og Reykjavík Hotels funduðu með tæplega 25 tékkneskum ferðaþjónustuaðilum. Í lok dagsins bættust fleiri gestir við í móttöku sem Íslandsstofa, ásamt Þóri Gunnarssyni, ræðismanni Íslands í Prag, stóð fyrir.

Forseti Íslands hr Ólafur Ragnar Grímsson gaf sér tíma úr annars mjög þéttri dagskrá hinnar opinberu heimsóknar til að ávarpa gesti í móttökunni við góðar undirtektir.

Á fræðslufundi sem íslensku fyrirtækin áttu fyrr um daginn með fulltrúum tékkneskra ferðamálayfirvalda kom fram að Tékkar taka gjarnan tvö frí á ári og nýta annað í sólarferðir en hitt til að ferðast um eigið land og þá gjarnan í fjallgöngum eða hjólreiðum. Hópurinn, sem er á aldurbilinu 20 til 45 ára, er alla jafna vel tengdur við internetið og ætti að vera möguleiki á að höfða til þeirra með ævintýraferðir til  Íslands.  Þar myndi sú áhersla sem er á notkun samfélagsmiðla í Ísland - allt árið herferðinni nýtast mjög vel.

Deila