Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
29. október 2014

Íslandsstofa bakhjarl Kokkalandsliðsins

Íslandsstofa bakhjarl Kokkalandsliðsins
Bakhjarlar íslenska Kokkalandsliðsins undirrituðu samstarfssamning við liðið í æfingahúsnæði þess að Bitruhálsi 2, þriðjudaginn 28. október.

Bakhjarlar íslenska Kokkalandsliðsins undirrituðu samstarfssamning við liðið í æfingahúsnæði þess að Bitruhálsi 2 þriðjudaginn 28. október. Auk Íslandsstofu eru það Icelandair, Icelandic og Marel sem standa að baki liðinu sem mun taka þátt í Heimsmeistarakeppninni í matreiðslu í Lúxemborg í nóvember. Að undirskrift lokinni var boðið upp á þriggja rétta keppnismáltíð sem elduð er úr hágæða íslensku hráefni.

Íslandsstofa sér tækifæri í samstarfinu þegar kemur að kynningu á íslenskri matarmenningu og hágæða íslensku hráefni sem ferðamenn njóta á Íslandi og flutt er út á erlenda markaði. Matreiðslumenn gegna mikilvægu hlutverki í að byggja upp ímynd Íslands sem matvælalands.

Hafliði Halldórsson framkvæmdastjóri Kokkalandsliðsins segir að stuðningur við Kokkalandsliðið skipti sköpum. “Það er heilmikið mál að senda lið til þátttöku í Heimsmeistarakeppnina sem haldin er á fjögurra ára fresti og margt sem þarf að huga að. Það er því gríðarlega mikilvægt að fá svo öflug fyrirtæki sem bakhjarlarnir eru til liðs við okkur. Með stuðningi bakhjarlanna er mögulegt að umgjörð Kokkalandsliðsins verði fagleg og standist samanburð við það sem aðrar þjóðir gera fyrir sín lið enda keppir liðið stolt fyrir hönd Íslands.”

Heimsmeistarakeppnin, Culinary World Cup, er haldin á fjögurra ára fresti. Þar mætast yfir 700 af færustu kokkum heimsins frá um 40 þjóðum og keppa sín á milli um gull, silfur og brons verðlaun. Keppt er í tveimur greinum, annars vegar er keppt í köldu borði eða Culinary Art Table og hins vegar er keppt í heitum mat eða Hot Kitchen.

Íslenskir hönnuðir hafa unnið með liðinu í að hanna framsetningu réttanna, hannað leirmuni og umbúnað m.a. úr íslenskum rekavið.

Kokkalandsliðið sem hefur æft fyrir keppnina síðustu 18 mánuði er skipað tólf matreiðslumönnum, konum og körlum, sem flestir eru ungir að árum. Kokkalandsliðið hefur opnað vefsíðuna kokkalandslidid.is þar sem er að finna allar helstu upplýsingar um liðið og einstaka liðsmenn. Þá geta landsmenn fylgst með Kokkalandsliðinu á samfélagsmiðlunum Facebook, Instagram @icelandicculinaryteam #kokkalandslidid #icelandicculinaryteam og Twitter @kokkalandslidid. 

Deila