Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
27. apríl 2015

Íslensk ferðaþjónusta kynnt víða

Íslensk ferðaþjónusta kynnt víða
Starfsfólk Íslandsstofu hefur verið á ferð og flugi við að kynna Ísland á erlendri grund undanfarna mánuði.

Starfsfólk Íslandsstofu hefur verið á ferð og flugi við að kynna Ísland á erlendri grundu undanfarna mánuði. Þjóðarbás Íslands fékk að rísa á MATKA ferðasýningunni í Helsinki í byrjun janúar, á FITUR í Madrid í lok janúar og á Vakantiebeurs í Utrecht í Hollandi um miðjan janúar. Þá var veglegur bás settur upp á ITB sýningunni í Berlín í byrjun mars, á TUR í Gautaborg undir lok mars og síðast en ekki síst var skipulögð þátttaka á MITT í Moskvu í mars. Þátttökufyrirtæki á þjóðarbásum voru allt frá 7 upp í 22 og ríkti almenn ánægja meðal þeirra með sýningarnar.

Auk þátttöku í ferðasýningum skipulagði Íslandsstofa vinnuferðir til Póllands og Eistlands í janúar og árlega vinnustofu í samstarfi við Finnland og Eistland í London undir lok janúar.

Fimm borgir í Kína heimsóttar
Nýafstaðin er vinnustofuferð til Kína í samstarfi við sendiráð Íslands í Kína þar sem heimsóttar voru fimm borgir á jafn mörgum dögum en yfir 300 ferðaþjónustuaðilar í Kína fengu kynningu á Íslandi og Grænlandi sem áfangastað dagana 12. – 17. apríl. Níu íslensk fyrirtæki tóku þátt ásamt fulltrúum frá Visit Greenland, samtals um tuttugu manns. Íslensku fyrirtækin sem tóku þátt voru: Icelandair, Icelandair Holidays, Reykjavík Excursions, Grayline, Iceland Europe Travel Partnership, Guðmundur Jónasson Travel, Flugfélag Íslands, Íslandshótel og Yu Fan Travel.

Vinnustofur í Þýskalandi og Sviss
Þá voru nýverið allt að 15 íslensk fyrirtæki í för með Íslandsstofu til að kynna starfsemi sína í Genf, Basel og Frankfurt. Fulltrúar svissneskra og þýskra ferðaþjónustufyrirtækja komu á vinnustofurnar og ljóst er að áhuginn á Íslandi sem ferðaáfangastað er sem fyrr mikill í þessum löndum. Töluverð aukn­ing hefur verið á komu ferðamanna til Íslands frá báðum löndunum. Árið 2014 var um 13% aukning á komu þýskra ferðamanna frá árinu áður og um 35% aukning í komu svissneskra ferðamanna milli 2013 og 2014. Í heildina komu yfir 80 gestir á þessar þrjár vinnustofur. Af Íslands hálfu tóku 14 fyrirtæki þátt í vinnustofunni: GoNorth, Gray Line Iceland, Hotel Cabin/Hotel Klettur & Hotel Örk, Icelandair, Iceland Travel, Icelandair Hotels, Íshestar, Katla DMI, Reykjavík Excursions, Snæland Travel, Soleil de Minuit, Special Tours, Terrra Nova Iceland og WOW Air.

Vinnustofur á Írlandi og Norður Írlandi
Þá eru nýafstaðnar vinnustofur í Dublin og Belfast en það mun vera í fyrsta sinn sem Íslandsstofa skipuleggur vinnufundi fyrir ferðaþjónustuaðila þar. Fulltrúar ferðaþjónustufyrirtækja í þessum borgum og nágrenni komu og fengu kynningu á Íslandi og starfi Íslandsstofu í markaðs- og kynningarmálum og áttu fundi með þeim ellefu íslensku ferðaþjónustuaðilum sem voru með í för, þau voru: CenterHotels, Elding, GoNorth, Gray Line Iceland, Iceland Travel, Ferðaþjónusta Bænda, Mountaineers of Iceland, Kynnisferðir, Snæland Travel, Terra Nova Iceland og WOW air, sem hefja flug til Dublin 2. júní næstkomandi. Mikill áhugi var á Íslandi sem áfangastað í þessum borgum en 35 fulltrúar lögðu leið sína á vinnustofurnar tvær.

Að lokum verða haldnar vinnustofur á Norðurlöndunum fjórum í byrjun maí en hlé verður annars á viðburðum á vegum Íslandsstofu yfir sumartímann en skipulag viðburða erlendis í haust má sjá hér

Deila