Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
15. mars 2018

Íslensk ferðaþjónusta öflug á ITB 2018 í Berlín

Íslensk ferðaþjónusta öflug á ITB 2018 í Berlín
Íslenski þjóðarbásinn vakti mikla athygli á ITB í Berlín dagana 7.- 11. mars sl. en um er að ræða stærstu fag- og ferðasýningu í heimi.

Íslenski þjóðarbásinn vakti mikla athygli á ITB ferðasýningunni í Berlín dagana 7.- 11. mars sl., en um er að ræða stærstu fag- og ferðasýningu í heimi. Alls tóku 31 fyrirtæki í ferðaþjónustu þátt á bás Íslandsstofu á sameiginlegu norrænu sýningarsvæði. Þá veittu fulltrúar frá markaðsstofum landshlutanna upplýsingar um sín landssvæði.

Norræna sýningarsvæðið fékk sérstaka viðurkenningu fyrir framúrskarandi útlit og yfirbragð í flokki evrópskra sýningarsbása. Á ITB 2018 var unnið að markmiðum í íslenskri ferðaþjónustu þar sem lögð er áhersla á að hvetja ferðamenn og erlenda ferðaheildsala til þess að kynna sér ferðaþjónustu um land allt, árið um kring með ábyrgð og öryggi að leiðarljósi. Allt markaðsstarf á vegum Íslandsstofu er unnið undir merkjum Inspired by Iceland.

Í tengslum við ITB bauð Íslandsstofa í samráði við íslenska sendiráðið í Berlín fulltrúum sérvalinna þýskra fjölmiðla til kvöldverðar í bústað sendiráðsins. Þar var þátttaka Íslands í ITB 2018 og íslensk ferðaþjónusta kynnt sem og kynningarátak í tengslum við þátttöku Íslands í heimsmeistarakeppni karla í fótbolta í Rússlandi. Vakin var athygli á því að Ísland er fámennasta þjóðin sem komist hefur í hóp keppenda í HM. Fjölmiðlakvöldverðurinn skilaði Íslandi mjög jákvæðri umfjöllun í þýskum miðlum.

Deila