Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
13. mars 2015

Íslensk markaðssetning í forgrunni á ITB ferðasýningunni í Berlín

Íslensk markaðssetning í forgrunni á ITB ferðasýningunni í Berlín
Íslandsstofa skipulagði þátttöku tuttugu og tveggja fyrirtækja í ferðasýningunni ITB sem haldin var í Berlín, dagana 4.-8. mars sl.

Íslandsstofa skipulagði þátttöku tuttugu og tveggja fyrirtækja í ferðasýningunni ITB sem haldin var í Berlín, dagana 4.-8. mars sl. Sýningin er haldin árlega og er ein sú stærsta sinnar tegundar í heiminum en alls heimsóttu hana um 175 þúsundir manns. Líkt og undanfarin ár var bás Íslandsstofu á sameiginlegu sýningarsvæði allra Norður­landanna. Meðal sýnenda á íslenska básnum voru ferðaskrifstofur, hótel, afþreyingar­fyrirtæki og flugfélag. Fjöldi gesta frá öllum heimshornum sótti Íslandsbásinn heim alla sýningardagana. Þá heimsóttu um áttatíu fjölmiðlamenn norræna sýningarsvæðið á sameiginlegum fjölmiðlaviðburði allra Norðurlandanna á öðrum degi sýningarinnar. Íslandsstofa lagði sérstaka áherslu á íslenska hönnun og Hönnunarmars á fjölmiðlaviðburðinum í góðu samstarfi við Hönnunarmiðstöð.

Ferðaþjónusta og fræðsluerindi Íslandsstofu á ITB

Samhliða ferðasýningunni var mikið um fyrirlestra og fræðsluerindi um þróun og nýjungar í ferðaþjónustu. Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður sviðs ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu, hélt erindi um þær breytingar sem gerðar hafa verið á markaðssetningu Íslands undanfarin ár með sérstakri áherslu á stafræna markaðssetningu. Doug Lansky, ritstjóri hjá ferðavefnum Skift, hélt þar einnig erindi ásamt Mark Henry sem er yfirmaður stafrænnar markaðssetningar hjá Tourism Ireland. Í lokin voru líflegar umræður um framtíð markaðssetningar og ferðaþjónustu. Nánar má fræðast um erindin á: Digital Tourism Think Tanks. Góður rómur var gerður að erindi Ingu Hlínar og vakti nálgun í markaðssetningu íslenskrar ferða­þjónustu undanfarin ár mikla athygli áheyrenda. Inga Hlín hélt jafnframt fyrirlestur um Ísland og ímynd og mörkun landsins (e. „nation branding“) við Institute of Cultural Diplomacy í Berlín.

Island Pro Travel vinnur til verðlauna hjá Nordis Magazin

Íslensk-þýski ferðaheildsalinn Island Pro Travel vann á ITB til verðlauna hjá Nordis Magazin fyrir besta nýja vöruframboðið. Verðlaunin voru veitt fyrir Iceland ProCruises verkefnið með skemmti­ferða­skipinu Ocean Diamond. Nordis Magazin í Þýskalandi veitir slík verðlaun árlega til þeirra sem selja ferðir til Norðurlandanna en efni tímaritsins er helgað umfjöllun um ferðaþjónustu og menningarmál á Norðurlöndunum.

Deila