Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
30. júní 2017

Íslensk matvælafyrirtæki kanna sérvörumarkaðinn í New York

Íslensk matvælafyrirtæki kanna sérvörumarkaðinn í New York
Nú á dögunum skipulögðu Íslandsstofa og aðalræðisskrifstofa Íslands í New York viðskiptaheimsókn íslenskra matvælafyrirtækja til New York. Tilgangur ferðarinnar var að kynnast sérvörumarkaðnum og viðskiptaumhverfinu í Bandaríkjunum og skapa tengsl við hugsanlega kaupendur og sérfræðinga.

Nú á dögunum skipulögðu Íslandsstofa og aðalræðisskrifstofa Íslands í New York viðskiptaheimsókn íslenskra matvælafyrirtækja til New York. Tilgangur ferðarinnar var að kynnast sérvörumarkaðnum og viðskiptaumhverfinu í Bandaríkjunum og skapa tengsl við hugsanlega kaupendur og sérfræðinga.

Hópurinn kynnti sér matvælasýninguna Fancy Food Show sem haldin var í Javits Center í New York dagana 25. - 27. júní. Sýningin er sú stærsta á sviði sérvöru í Norður Ameríku og fer fram árlega í New York í júní og San Francisco í janúar. Íslensku fyrirtækin fengu fræðslu um sýninguna og Specialty Food samtökin hjá Chris Nemcheck, varaformanni hjá samtökunum. Sigurður Hilmarsson framkvæmdastjóri og stofnandi Siggi‘s Dairy tók á móti hópnum á básnum sínum og miðlaði af sinni reynslu á markaðnum. Þá átti hópurinn einnig fund með Eric Skae, framkvæmdastjóra hjá Rao‘s Specialty Foods sem kom til Íslands í febrúar sl. og hélt erindi á fundi um matvælamarkaðinn í Bandaríkjunum. Fyrirtækin nýttu tímann vel til að skoða það mikla úrval sem kynnt var á sýningunni, hitta dreifingaaðila, mögulega samstarfsaðila og fræðast um helstu stefnur og strauma á sérvörumarkaðnum.

Auk þess að skoða sýninguna fór hópurinn í vettvangsferð í sérvöruverslanirnar Dean & Deluca, Eatly, Chelsea Market og Whole Foods Market. Þá fundaði hópurinn með Elly Truesdell hjá Whole Foods Market og hitti Gunnar Karl Gunnarsson yfirkokk á veitingastaðnum Agern sem er á Grand Central lestarstöðinni. Þar er einnig norrænn matarmarkaður, Great Northern Food Hall sem hópurinn kynnti sér. Gunnar Karl miðlaði af reynslu sinni og hvernig norræni maturinn er kynntur.

Í ferðinni sótti hópurinn einnig fræðslu- og kynningarfund um viðskiptaumhverfið á bandaríska markaðnum hjá lögfræðistofunni Hodgson Russ þar sem m.a. var fjallað um vörumerkja- og einkaleyfaskráningu, samningagerð og skráningu fyrirtækja í Bandaríkjunum.

Næstu skref eru að móta aðgerðir og styrkja tengsl við þá aðila sem fyrirtækin hittu í ferðinni ásamt því að kanna áhuga á þátttöku í Fancy Food sýningunni á næsta ári. 

Deila