Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
21. nóvember 2019

Íslensk sprota- og tæknifyrirtæki gerðu góða ferð í Asíu

Íslensk sprota- og tæknifyrirtæki gerðu góða ferð í Asíu
Sendinefnd íslenskra sprota- og tæknifyrirtækja var á ferð í Asíu á dögunum. Hópurinn heimsótti annars vegar Singapúr og hins vegar kínversku borgina Shenzhen.

Í Singapúr var m.a. haldin móttaka í Nordic Innovation House Singapore (NIH Singapore) sem Ísland á aðild að og nýst getur íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum. Gestgjafi var Sigríður Snævarr, heimasendiherra Íslands gagnvart Singapúr, en til móttökunnar mætti fjöldi áhugasamra aðila um íslensku fyrirtækin og Ísland. Á sama tíma fór fram nýsköpunar og tæknivika í Singapúr svo af nægu var að taka af fjölda  viðburða og fyrirlestra sem hópurinn sótti.

Frá Singapúr lá leið hópsins til Shenzhen, í Suður-Kína, þar sem hátækni- og nýsköpunarsýningin China Hi-Tech Fair var sótt. Kemur þessi heimsókn í kjölfar heimsóknar stórrar sendinefndar til Íslands í fyrra. China Hi-Tech Fair er stærsta kaupstefna sem haldin er innan kínverska tæknigeirans ár hvert. Alls um 3.300 fyrirtæki, frá 40 löndum, tóku þátt á sýningunni í ár.

Þrjú íslensk fyrirtæki tóku þátt í sýningunni í ár auk fulltrúa Íslandsstofu og Icelandic Startups. Hafði íslenski hópurinn aðstöðu á bás á vegum Nordic Innovation House, með öðrum norrænum fyrirtækjum. Fyrirtækjunum bauðst einnig að taka þátt í viðskiptafundum með kínverskum fyrirtækjum og fjárfestum auk þess að heimsækja þekkt tæknifyrirtæki og nýsköpunarklasa í Shenzhen.

Eftirtalin fyrirtæki voru með í för, auk fulltrúa Íslandsstofu og Icelandic Startups; Unimaze, Azunaro, Ankeri og Meniga. Um var að ræða samstarfsverkefni Íslandsstofu, utanríkisráðuneytisins, Icelandic Startups og sendiráða Íslands í Peking og Tókýó.

Deila