Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
20. desember 2016

Ítalskir kokkar kynna sér fiskinn okkar

Ítalskir kokkar kynna sér fiskinn okkar
Í byrjun desember komu hingað til lands tveir ítalskir kokkar frá Campania héraðinu í þeim tilgangi að kynnast fiskveiðum og vinnslu og landinu almennt.

Í byrjun desember komu hingað til lands tveir ítalskir kokkar frá Campania héraðinu í þeim tilgangi að kynnast fiskveiðum og vinnslu og landinu almennt. Báðir eru meðal dyggra kaupenda á íslenskum fiski og bjóða upp á saltfisk frá Íslandi á veitingastöðum sínum. Heimsókn þeirra tengist markaðsstarfi fyrir saltaðar þorskafurðir sem Íslandsstofa sinnir í samstarfi við söluaðila og framleiðendur.

Vincenzo Russo er frá veitingastaðnum Baccalaria í Napólí og Vincenzo Nocerino frá veitingastaðnum Laconda Nonna Rosa í Somma Vesuviana. Báðir veitingastaðirnir sérhæfa sig í að bjóða mikil úrval saltfiskrétta og er um fjölbreytta flóru að ræða undir alþjóðlegum áhrifum, m.a. grískum og taílenskum. Kokkunum var boðið til landsins bæði til að kynnast framleiðslu á gæðaafurðum úr þorski en einnig til að miðla til okkar hefðum á Ítalíu í meðhöndlun og eldun á saltfiski. 

Starfsfólki af íslenskum veitingastöðum og þátttakendum í markaðsverkefninu var boðið í sýnikennslunni í Salt eldhúsi þar sem Ítalirnir elduðu sex rétti hvor. Í framhaldinu munu þessir veitingastaðir gera saltfiski hærra undir höfði á veitingastöðum landsins og geta þá þeir fjölmörgu Suður Evrópubúar sem sækja Ísland heim upplifað saltfiskinn hér á landi.

Ítalirnir heimsóttu sjávarútvegsfyrirtæki og vinnslur bæði á Höfn og í Reykjavík og hittu framleiðendur í verkefninu sem gátu miðlað þekkingu og fróðleik um hráefnið. Þeim gafst einnig tækifæri á að skoða landið og kynnast öðru hráefni s.s. tómataframleiðslu, rúgbrauðsgerð, skyri og súkkulaði. Heimsóknin tókst vel í alla staði og voru þeir þakklátir fyrir að hafa verið valdir til ferðarinnar. Báðir hafa verið iðnir við að miðla upplifun sinni af Íslandi á samfélagsmiðlum og í sínum „kreðsum“ á heimaslóð, eftir að heim var komið.

Deila