Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
10. nóvember 2014

Ítarleg umfjöllun um íslenska matarmenningu í einu stærsta dagblaði Þýskalands

Ítarleg umfjöllun um íslenska matarmenningu í einu stærsta dagblaði Þýskalands
Höfundur greinarinnar er þýski matarblaðamaðurinn Jakob Strobel y Serra sem kom hingað til lands um miðjan september í ferð sem var skipulögð af Íslandsstofu.

„Bylting í íslenskri matarmenningu“ er meginþema ítarlegrar greinar sem birtist nýlega í einu stærsta dagblaði Þýskalands, Frankfurter Allgemeine Zeitung (FAZ). Höfundur greinarinnar er þýski matarblaðamaðurinn Jakob Strobel y Serra sem kom hingað til lands um miðjan september í ferð sem var skipulögð af  Íslandsstofu.

Jakob segir í grein sinni að bylting sé hafin á Íslandi. Engin fallöxi komi við sögu, heldur séu það hnífar íslenskra matreiðslumanna sem leiði þá byltingu. Í grein sinni fer Jakob Strobel lofsamlegum orðum um þá upplifun sem hann varð fyrir í heimsókn sinni til Íslands. Þá daga sem Jakob dvaldi á Íslandi heimsótti hann m.a. sauðfjárbónda í Þingvallasveit, tómataframleiðanda í Biskupstungum, fiskvinnslu og íslenska sælkeraverslun í Reykjavík auk þess að borða fjölbreyttan íslenskan mat á veitingahúsum.

Kynning á matarmenningu mikilvægur þáttur í starfssemi Íslandsstofu

Frásögn þýska blaðamannsins af heimsókn hans til Íslands er mjög lifandi og skemmtileg þar sem honum tekst að tengja menningu, landslag, tungumál og margt fleira við matargerðina. Hann segir sköpunargleðina ráða ríkjum í íslenskri matargerð og að hráefnið sé ferskt og fyrsta flokks. Íslandsstofa sem sinnir reglubundið verkefnum af þessu tagi, og sem er einnig einn bakhjarla íslenska kokkalandsliðsins, hefur lagt mikla áherslu á að sýna þá miklu framþróun sem á sér stað í íslenskri matarmenningu. Grein þýska matarblaðamannsins Jakob Strobel tekur svo sannarlega undir það.

Jakob Strobel y Serra er einn af þekktustu matarblaðamönnum í Þýskalandi. Hann hefur hann skrifað fjölda bóka um matreiðslu auk þess sem hann hefur ferðast mjög víða til að skrifa um mat og matarmenningu. Frankfurter Allgemeine Zeitung er eitt mest lesna dagblað Þýskalands, gefið út í 355.990 eintökum daglega og vefsíðu miðilsins heimsækja rúmlega 4,8 milljónir einstakir notendur með rúmum 27 milljón heimsóknum í síðasta mánuði.

Hér má sjá á greinina sem birtist í FAZ

Deila