Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
3. nóvember 2011

Jón Ásbergsson er markaðsmaður ársins 2011

Jón Ásbergsson framkvæmdastjóri Íslandsstofu var í dag valinn Markaðsmaður ársins 2011 af ÍMARK, Félagi íslensks markaðsfólks. Í tilkynningu frá ÍMARK segir að Jón vinni verðlaunin fyrir að hafa náð miklum árangri með Íslandsstofu og herferðina Inspired by Iceland. Ennfremur segir:

Í júní 2010 var Íslandsstofa stofnuð og tók Jón Ásbergsson við framkvæmdastjórn. Á þessu rúmlega ári hefur Jón náð miklum árangri með Íslandsstofu, en hlutverk hennar er að vera vettvangur markaðs- og kynningarmála landsmanna á erlendri grundu. Nærtækast er að nefna markaðsátak ferðaþjónustunnar sem þekkt er undir nafninu Inspired by Iceland. Þar náðist einstakur árangur á mörgum sviðum. Í fyrsta lagi má nefna að það er einstakt að hið opinbera og ólíkir aðilar úr einkageiranum leggist jafnt á árarnar eins og gert var í þessu stærstu markaðsaðgerð sem við þekkjum.

Þetta var allt saman gert undir forystu Jóns og starfsfólks Íslandsstofu. Vel skipulögð markaðssetning og markvissar markaðsaðgerðir skiluðu eftirtektarverðum árangri. Árangur herferðarinnar hefur ekki eingöngu vakið athygli hérlendis heldur hefur hún einnig fengið viðurkenningar á erlendum vettvangi. Inspired by Iceland fékk fyrstu verðlaun fyrir bestu herferðina á Euro Effie, en þau eru ein eftirsóttustu auglýsingaverðlaun Evrópu. Á sama vettvangi fékk herferðin verðlaun fyrir bestu nýtingu á svokölluðum samfélagsmiðlum. Þá hefur herferðin fengið silfurverðlaunin í The Account Planning Group í Bretlandi fyrir hugmyndaríka stefnumörkun. Einning má nefna að núna í þessari viku vann herferðin IPA Effectiveness Award í London.

Þá var Icelandair valið markaðsfyrirtæki ársins 2011, en auk þess voru Nova og Össur tilnefnd til verðlaunanna. Þessi fyrirtæki hafa sýnt frábæran árangur hvert á sínu sviði og mjög faglegt markaðsstarf, segir í tilkynningu frá ÍMARK.

Verðlaunaafhendingin fór á Hilton Reykjavík Nordica. Mjög góð aðsókn var eins og áður á þennan viðburð enda vekur afhendingin ávallt athygli í íslensku viðskiptalífi. Forseti Íslands hr. Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti verðlaunin fyrir hönd ÍMARK og er í 21. sinn sem verðlaunin eru veitt. Ræðumaður dagsins var Magnús Geir Þórðarson leikhússtjóri Borgarleikhússins en leikhúsið var markaðsfyrirtæki ársins 2010.

 

Deila