Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
11. október 2021

Kynning á íslenskum sjávarútvegi í London

Kynning á íslenskum sjávarútvegi í London
Markmið viðburðarins „Discover Seafood from Iceland" var að efla enn frekar tengslamyndun milli fiskiðnaðarins í Bretlandi og á Íslandi.

Þann 7. október stóðu sendiráð Íslands í London og Seafood from Iceland fyrir viðburðinum Discover Seafood sem haldinn var við bakka Thames í sögufrægum höfuðstöðvum fiskkaupmanna í London, Fishmongers' Hall. Bretland er stærsti útflutningsmarkaður Íslands fyrir sjávarafurðir og náið samstarf ríkjanna tveggja á þessu sviði því afar mikilvægt. Markmið viðburðarins var að efla enn frekar tengslamyndun milli fiskiðnaðarins í Bretlandi og á Íslandi. Þátttakendur voru t.a.m. fisksalar og kaupendur frá Bretlandi, útflutningsaðilar frá Íslandi, fulltrúar íslenskra og breskra stjórnvalda og ýmsir aðrir hagaðilar í breskum og íslenskum sjávarútvegi.

Flutt voru fjölbreytt erindi um íslenskan sjávarútveg og afurðir. Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, ræddi um sjálfbærni sjávarútvegs, Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar fjallaði um íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið og stöðu helstu fiskstofna á íslenskum miðum og Kristján Þórarinson stofnvistfræðingur talaði um vottun sjávarafurða. Þá var Björgvin Þór Björgvinsson fagstjóri sjávarútvegs hjá Íslandsstofu með kynningu á Seafood from Iceland verkefninu og markaðsherferðinni Fishmas. Fulltrúar breskra stjórnvalda voru einnig viðstaddir, m.a. Felicity Buchan, þingkona, en forsætisráðherra Bretlands skipaði hana nýlega sem sérstakan erindreka breskra stjórnvalda til að efla viðskipti Bretlands og Íslands. Seafood from Iceland var styrktaraðili viðburðarins ásamt hinu aldagamla Félagi Fiskkaupmanna (Fishmongers' Company), sem á sér meira en 700 ára sögu.

Að málstofu lokinni var gestum boðið upp á þriggja rétta málsverð þar sem íslenskur fiskur var í aðalhlutverki og matreiðslumeistararnir Friðrik Sigurðsson frá utanríkisráðuneytinu og Stefan Pini frá Fishmongers´Hall reiddu fram dýrindis sjávarrétti.

Samhljómur var meðal þátttakenda um mikilvægi þess að efla tengslamyndun með þessum hætti. Fyrir marga var þetta fyrsti viðburðurinn af þessu tagi í langan tíma og því kærkomið að geta komið saman og rætt málin í eigin persónu.


Deila