Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
30. júní 2015

Kynningarfundur um skráningar á vörum í Kína

Kynningarfundur um skráningar á vörum í Kína
Utanríkisráðuneytið og Íslandsstofa stóðu í vikunni fyrir kynningarfundi þar sem fulltrúi kínverska Fæðu- og Lyfjaeftirlitsins (The China Food and Drug Administration) fjallaði um ný og endurbætt lög sem taka gildi í Kína þann 1. október næstkomandi og varða m.a. skráningarferli á vörum.

Utanríkisráðuneytið og Íslandsstofa stóðu í vikunni fyrir kynningarfundi þar sem fulltrúi kínverska Fæðu- og Lyfjaeftirlitsins (The China Food and Drug Administration (CFDA)) fjallaði um ný og endurbætt lög sem taka gildi í Kína þann 1. október næstkomandi. Lögin taka m.a. til þess skráningarferlis sem fyrirtæki þurfa að fara í gegnum vegna matvæla og fæðubótarefna sem markaðssett eru sem heilsuvörur í Kína. Á það ekki við um matvæli almennt, heldur einungis þau sem markaðssett eru með fullyrðingum um jákvæða virkni á heilsufar.  

Á fundinum kom fram að unnið er að því að setja saman lista yfir viðurkennd virk innihaldsefni og er skráningarferlið einfaldara fyrir þá sem framleiða eða selja heilsuvörur sem innihalda þau efni, en ef skrá þarf nýtt efni. CFDA gerir ríkar kröfur til gagna um virkni, skammtastærðir og fleira og enn sem komið er viðurkennir stofnunin aðeins rannsóknir ákveðinna kínverskra rannsóknarstofa. Nauðsynlegt er að fyrirtæki hafi sinn fulltrúa á markaði í Kína sem getur sinnt samskiptum við CFDA á meðan á umsóknarferli stendur. Fyrirtæki sem hyggjast markaðssetja heilsuvörur í Kína eru hvött til að kynna sér reglur og ferli mjög vel.

Petur Yang Li, viðskiptafulltrúi Íslands í Kína var viðstaddur fundinn. Hann er íslenskum fyrirtækjum og einstaklingum til ráðgjafar en hann býr yfir mikilli reynslu og hefur góð sambönd meðal annars vegna vinnu við fríverslunarsamning Kína og Íslands. Ef fyrirtæki vilja leita aðstoðar hans eða óska frekari upplýsinga frá kínverska matvæla- og lyfjaeftirlitinu eru þau hvött til að hafa samband við Petur í netfangið yang@mfa.is en hann er aftur væntanlegur til landsins í september og býður þá upp á viðtöl hjá Íslandsstofu. Viðburðurinn verður auglýstur þegar þar að kemur. 

Nánar um kínverska Fæðu- og Lyfjaeftirlitið (CFDA). 

Nánari upplýsingar veita Erna Björnsdóttir, erna@islandsstofa.is  og Andri Marteinsson, andri@islandsstofa.is eða í síma 511 4000.

Deila