Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
10. desember 2020

Let it out herferðin tilnefnd til verðlauna

Let it out herferðin tilnefnd til verðlauna
Markaðsherferðin Let It Out sem keyrð var undir merkjum Inspired by Iceland síðastliðið sumar hefur verið tilnefnd til tvennra Digiday verðlauna.

Markaðsherferðin Let It Out sem keyrð var undir merkjum Inspired by Iceland síðastliðið sumar hefur verið tilnefnd til tvennra Digiday verðlauna. Tilnefningarnar eru í flokki almannatengsla annars vegar, og í flokknum besta auglýsingin hins vegar. Bandaríski fagmiðillinn Digiday verðlaunar árlega markaðsstarf fyrirtækja fyrir bæði hugmyndaauðgi og árangur og eru verðlaunin eftirsótt meðal fagfólks í markaðsgeiranum.

Myndbandið sem hvatti fólk til þátttöku í Let it Out herferðinni er tilnefnt í flokknum besta auglýsingin. Það voru M&C Saatchi og Peel auglýsingastofa sem unnu handrit og hugmyndavinnu að myndbandinu, en framleiðslufyrirtækið Skot sá um upptökur og framleiðslu. Leikstjórn var í höndum þeirra Samúels Bjarka Péturssonar og Gunnars Páls Ólafssonar, en Úlfur Eldjárn samdi tónlistina.

„Það er okkur mikil ánægja að herferðin skuli vera tilnefnd til þessara eftirsóttu verðlauna,“ sagði Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu. „Ekki síst fyrir það hve góður vitnisburður þetta er um það vandaða starf sem íslenskt fagfólk hefur unnið í tengslum við þessa herferð.“

Auk tilnefninga til Digiday verðlaunanna hefur herferðin verið valin sem ein af 25 bestu herferðum ársins hjá fagmiðlinum Contagious sem fjallar um markaðsmál í víðu samhengi. Ísland er eini áfangastaðurinn sem kemst á þann virta lista, og er Inspired by Iceland þar á meðal margra þekktustu vörumerkja heims.

Annar áfangi í markaðsverkefninu Ísland - saman í sókn hófst í gær þegar frumsýnt var nýtt myndband þar sem fólk er hvatt til þess að skruna sér til ánægju á nýjum vef sem finna má á slóðinni www.joyscroll.com. Þar hefur verið komið fyrir 22,7 metrum af gleðigefandi efni frá Íslandi, sem hugsað er sem mótvægi gegn stanslausum straumi neikvæðra frétta undanfarið, en doomscroll (dómsdagsskrun) hefur verið valið orð ársins hjá mörgum enskumælandi miðlum. Merkingin nær yfir þá hegðun að fólk er í símum að skoða samfélagsmiðla og festist í að skruna endalaust niður skjáinn að skoða neikvæðar fréttir

Deila