Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
17. maí 2014

Magnús Scheving heiðraður á Bessastöðum

Magnús Scheving heiðraður á Bessastöðum
Magnús Scheving, stofnandi Latabæjar, hlaut á fimmtudag sérstaka heiðursviðurkenningu við afhendingu Útflutningsverðlauna forseta Íslands við athöfn á Bessastöðum.

Magnús Scheving, stofnandi Latabæjar, hlaut á fimmtudag sérstaka heiðursviðurkenningu við afhendingu Útflutningsverðlauna forseta Íslands við athöfn á Bessastöðum. Heiðursviðurkenningin er veitt einstaklingi sem þykir með starfi sínu hafa borið hróður Íslands víða um heim og þannig stuðlað að jákvæðu umtali um land okkar og þjóð. Á síðasta ári hlaut Jóhann Sigurðsson bókaútgefandi heiðursviðurkenninguna en áður hafa m.a. Kristinn Sigmundsson óperusöngvari og Björk hlotið hana.

Í ræðu sinni um Magnús sagði Vilborg Einarsdóttir, formaður valnefndar og stjórnar Íslandsstofu, m.a.: „Lítil þjóð getur alla jafna ekki búist við því að meðal hennar þroskist einstaklingar sem geta haft umtalsverð áhrif á alþjóðlega stefnur og strauma. Magnús hefur þó sannað að slíkt er hægt, því með þrotlausu starfi og eldmóði hefur honum tekist að vekja athygli á hinni miklu vá sem offitan er fyrir allan hinn þróaða heim og honum hefur tekist að finna leiðir til að hvetja unga sem aldna til að temja sér heilsusamlegri lífshætti."

Latibær eða LazyTown er í dag alþjóðlega þekkt vörumerki fyrir heilsusamlegt líferni, hollt mataræði, hreyfingu og skemmtun og hefur náð til 500 milljón heimila í 170 löndum. Þá hefur Latibær á liðnum árum verið stór atvinnurekandi og skapað að meðaltali yfir 100 ársverk í föstum og afleiddum störfum hér á landi og má t.d. áætla að um 4.5 milljarðar króna hafi komið inn í íslenskt hagkerfi á síðustu tveimur og hálfu ári í gegnum fyrirtækið.

Magnús Scheving hefur því sannarlega varpað jákvæðu ljósi á land okkar og þjóð með störfum sínum.

Myndir frá athöfninni

Deila