Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
9. desember 2019

Markaðstækifæri fyrir íslenska hestinn í Kína

Markaðstækifæri fyrir íslenska hestinn í Kína
Jelena Ohm, verkefnastjóri Horses of Iceland, tók þátt í 2019 World Horse Culture Forum í Hohhot í Kína dagana 28. nóvember til 1. desember.

Þar komu saman fulltrúar hrossakynja frá 30 löndum til að ræða hestamennsku. Jelena tók þátt í umræðum sem höfðu yfirskriftina „The Integration of Horse Culture Related Tourism“, um hestamenningu og ferðaþjónustu.

Mikill áhugi fjölmiðla 

Ráðstefnan vakti mikla athygli í Kína, en fjallað var um hana í kvöldfréttum ríkissjónvarpsins CCTV. Á ráðstefnunni voru um 200 blaðamenn og mörg viðtöl voru tekin við alla þátttakendur. Myndbönd frá ráðstefnunni voru sýnd á risaskjáum víða um borgina, þar sem m.a. íslenski sendiherra sendi kveðjur. Kínverski herinn kom fram á opnunarhátíðinni og sérstakt lag, sem hafði verið samið fyrir þetta tilefni, var flutt.

Jia Youling, forseti Chinese Horse Industry Association (CHIA), kínversku hestasamtakanna, tók þátt í ráðstefnunni og fékk Jelena tækifæri til að spjalla við hann á einkafundi. Jia Youling starfar í landbúnaðarráðuneyti Kína, sem gefur til kynna hversu mikilvægur málaflokkur hesturinn er Kínverjum. CHIA hefur t.d. lagt til að hestafræði verði kennd í grunnskólum.

Hestamennska í örum vexti í Kína

Eftir ráðstefnuna fékk Horses of Iceland senda yfirlýsingu frá fulltrúum CHIA í Kína um að sendinefnd hafi áhuga á að koma til Íslands og kynnast íslenskri hestamenningu nánar. Horses of Iceland hefur einnig látið kanna möguleg markaðstækifæri í Kína með markaðsgreiningu. Hestamennska, sérstaklega frístundareið, er í miklum vexti í Kína. Kínverskir ferðamenn koma í auknu mæli til Íslands, þrátt fyrir samdrátt í ferðaþjónustu, en í ár var 16% aukning í fjölda ferðamanna frá Kína miðað við árið 2018.

Jelena Ohm segir: „Það var mikill heiður að íslenski hesturinn hafi fengið að vera hluti af þessari ráðstefnu. Ráðstefnan var fyrst og fremst vettvangur fyrir fólk til að tala saman og mynda tengsl. Þetta var í fyrsta skipti sem fulltrúi frá Íslandi tók þátt og það var enginn annar fulltrúi frá Skandinavíu. Fólk var mjög áhugasamt. Það verður spennandi að sjá hvort það séu framtíðartækifæri fyrir íslenska hestinn í Kína.“

Hér að neðan má sjá mynd af þátttakendum ráðstefnunnar.

Deila