Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
15. apríl 2015

Markaðsverkefni um íslenska hestinn ýtt úr vör

Markaðsverkefni um íslenska hestinn ýtt úr vör
Hagsmunaaðilar hafa tekið höndum saman, ásamt Íslandsstofu, um að marka stefnu og gera aðgerðaáætlun sem hefur það að markmiði að styrkja ímynd íslenska hestsins með samhæfðum skilaboðum, markaðsaðgerðum og kynningarstarfi.

Á fundi sem haldinn var í Borgarnesi 14. apríl var fyrsta áfanga í sameiginlegu markaðsstarfi til kynningar á íslenska hestinum og vörum og þjónustu honum tengdum, formlega ýtt úr vör. Hagsmunaaðilar hafa tekið höndum saman um að marka stefnu og gera aðgerðaáætlun sem hefur það að markmiði að styrkja ímynd íslenska hestsins með samhæfðum skilaboðum, markaðsaðgerðum og kynningarstarfi. Með faglegri vinnu og samtakamætti skapast möguleikar á að auka verðmætasköpun og gjaldeyrisöflun sem byggir á íslenska hestinum.

Félag hrossabænda, Landssamband hestamanna og Íslandsstofa boðuðu til fundarins fyrir hönd hagsmunaaðila. Góð mæting var á fundinn og mikill áhugi meðal fundarmanna um að taka þátt í verkefninu, en tæplega 60 manns sóttu fundinn víða að af landinu. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið styðja fyrsta áfanga verkefnisins og hélt Helga Sigurrós Valgeirsdóttir aðstoðarmaður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra opnunarávarp á fundinum. Hún sagði komna reynslu á ólík markaðssóknarverkefni með íslenskar vörur og þjónustu og þau sem ná árangri eiga það sameiginlegt að vera samstarfsverkefni stjórnvalda og hagsmunaaðila þar sem stefnan kemur frá grasrótinni.

Sveinn Steinarsson, formaður Félags hrossabænda fjallaði um væntingar til verkefnisins og varpaði fram spurningunni “Af hverju skyldi þetta takast núna?” Sveinn sagðist hafa heilmiklar væntingar til verkefnissins trú á því að hægt sé að gera góða hluti með því að standa saman að verkefninu. Þetta  sé langhlaup sem tekur í raun engan enda og það þurfi að hugsa það sem slíkt. Guðný Káradóttir, forstöðumaður hjá Íslandsstofu kynnti verkefnið, tilgang, markmið og aðferðafræði, og hvernig reynsla af markaðsverkefnum fyrir ferðaþjónustuna og sjávarútveg getur nýst í þessu verkefni. Stefnt sé að góðri samvinnu við Íslandshestafélög erlendis auk einstaklinga sem hafa unnið öflugt kynningastarf í gegnum tíðina. Þá sagði Tinna Dögg Kjartansdóttir markaðsfræðingur hjá tintinMarketing frá rannsóknum sem nýtast í vinnslu verkefnisins, m.a. sinni eigin rannsókn sem hún vann á þýska markaðinum í mastersverkefni sínu við HÍ. Fundarstjóri var Gunnar Sturluson, forseti FEIF, alþjóðasamtaka eigenda íslenskra hesta.

Kynning - Guðný Káradóttir
Kynning - Tinna Dögg 

Fundargestir voru sammála um að verkefnið væri þarft og löngu tímabært og margir lýstu yfir ánægju með að þessi vinna væri hafin í samstarfi hagsmunaaðila og með þátttöku Íslandsstofu sem hefur reynslu af rekstri markaðsverkefnum til kynningar á vörum og þjónustu á erlendum mörkuðum.  Að lokum voru uppbyggilegar og jákvæðar umræður og áhugaverðar vangaveltur komu fram um hvernig best væri að kynna íslenska hestinn.

Næstu skref eru vinnustofur sem haldnar verða 4. og 11. maí en markmið þeirra er að fá fram ólík sjónarmið og finna sameiginlega markaðsstefnu íslenska hestins. Nú þegar eru rúmlega 40 manns skráðir til þátttöku í vinnustofunum. Mynduð verður verkefnisstjórn hagsmunaaðila sem mun starfa með Íslandsstofu sem sér um framkvæmd verkefnisins.

Nánari upplýsingar veita:
Guðný Káradóttir / Íslandsstofa / gudny@islandsstofa.is / 511 4000

Deila