Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
4. nóvember 2015

Metþátttaka Íslendinga á World Travel Market og Guðmundur vinnur til verðlauna

Metþátttaka Íslendinga á World Travel Market og Guðmundur vinnur til verðlauna
Fjöldi gesta hefur heimsótt bás Íslandsstofu sem sér um þátttöku 23 íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja á ferðasýningunni World Travel Market í London. Herferðin Ask Guðmundur sigraði í samkeppni á staðnum um bestu herferðir á samfélagsmiðlum á árinu 2015 í ferðaþjónustu.

Fjöldi gesta hefur heimsótt bás Íslandsstofu sem sér um þátttöku 23 íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja á ferðasýningunni World Travel Market í London, dagana 2.-5. nóvember. Metþátttaka er í ár eins og í fyrra en nú eru 23 íslensk fyrirtæki hluti af þjóðarbásnum og yfir 50 manns taka þátt fyrir þeirra hönd.

World Travel Market er ein stærsta ferðasýning í heimi en áætlað er að yfir 52 þúsund gestir sæki sýninguna í ár og að haldnir séu um 1,1 milljón viðskiptafunda.

Enn er Guðmundur valinn bestur
Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu hélt einnig erindi á tveimur viðburðum á World Travel Market. Hið fyrra var samkeppni um bestu herferðir á samfélagsmiðlum á árinu 2015 í ferðaþjónustu á vegum fyrirtækisins Travel Perspective. Þar kepptu fyrir framan dómurum og fjölmennum sal, AirBnB, Contiki Holiday´s, Turkish Airlines og ferðamálaráð Eistlands og Íslandsstofa með herferðina Ask Guðmundur sem vann. Herferðin væri bæði valin best af dómurum og áhorfendum í sal.

Seinni viðburðinn var Digital Transformation in Travel eða stafræn þróun í ferðaþjónustu þar sem bæði Íslandsstofa, Visit Denmark og Cape Town Tourism sátu fyrir svörum um framtíð markaðssetningar áfangastaða.

Guðmundur mætti á svæðið
Guðmundur frá Vestfjörðum úr markaðsherferðinni Ask Gudmundur kíkti við á básnum á þriðjudag og hitti fyrir fjölmiðla og erlenda ferðaheildsala við góðar undirtektir. Guðmundur Magnús Kristjánsson sem er hafnarstjóri á Ísafirði lék að venju við hvern sinn fingur en hann hefur litið á það sem sérstaka áskorun að svara óvenjulegum spurningum ferðamanna enda á Guðmundur að veita forvitnilegri svör en leitarvélin Google. Fylgjast má með herferðinni með myllumerkinu #AskGuðmundur.

Íslensku fyrirtækin á World Travel Market
Íslensku fyrirtækin sem tóku þátt í ár voru eftirfarandi: Reykjavik Excursions, Elding, Icelandic Mountainguides, Wow air, Snæland Travel, Special tours, Kea Hotels, Gray Line Iceland, Icelandair Hotels, Iceland Travel, GJ Travel, Icelandair, Mountaineers of Iceland, Air Iceland, Norðursigling, Nordic Visitor, Saga Travel, Icelandic Farm Holidays, Guðmundur Tyrfingsson, Íslandshótel, Lava, Into the glacier og Whales of Iceland.

Deila