Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
5. september 2018

Ný stjórn Íslandsstofu skipuð, Jón Ásbergsson lætur af störfum

Ný stjórn Íslandsstofu skipuð, Jón Ásbergsson lætur af störfum
Ný stjórn Íslandsstofu hefur verið skipuð í kjölfar breytinga á lögum um Íslandsstofu sem samþykkt voru á Alþingi sl. vor.

Stjórnina skipa: Björgólfur Jóhannsson, formaður, Hildur Árnadóttir, varaformaður, Ásthildur Otharsdóttir og Jens Garðar Helgason, öll tilnefnd af Samtökum atvinnulífsins; Áshildur Bragadóttir og Borgar Þór Einarsson, bæði tilnefnd af utanríkisráðherra, og Friðjón R. Friðjónsson, tilnefndur af ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Hlutverk Íslandsstofu er meðal annars að vera samstarfsvettvangur atvinnulífs, hagsmunasamtaka, stofnana og stjórnvalda um stefnu og aðgerðir til þess að auka útflutningstekjur og hagvöxt. Enn fremur að veita alhliða þjónustu og ráðgjöf til allra útflutningsgreina í því skyni að greiða fyrir markaðssetningu og útflutningi á vöru og þjónustu og að laða erlenda ferðamenn til landsins með samræmdu kynningar- og markaðsstarfi. Þá er Íslandsstofu ætlað að laða erlenda fjárfestingu til landsins og upplýsa erlenda fjárfesta um kosti Íslands og að styðja við kynningu á íslenskri menningu, vörum og þjónustu erlendis. 

Jón Ásbergsson, sem verið hefur framkvæmdastjóri Íslandsstofu frá stofnun hennar árið 2010, mun að eigin ósk láta af störfum sem framkvæmdastjóri. Hann mun að beiðni stjórnar starfa áfram hjá Íslandsstofu og vera nýjum stjórnendum til ráðgjafar. Stjórn Íslandsstofu hefur ákveðið að staða framkvæmdastjóra verði auglýst á næstu dögum en þangað til nýr framkvæmdastjóri hefur verið ráðinn mun Jón gegna starfinu áfram. 

„Það hefur verið einstaklega ánægjulegt að vinna að sókn íslenskra fyrirtækja á erlendum mörkuðum á umliðnum árum í þessu starfi. Mjög margt hefur áunnist og óhætt að segja að ímynd Íslands þegar kemur að vörugæðum hefur sjaldan verið sterkari en einmitt nú. Ég hlakka til að taka þátt í þeim breytingum sem framundan eru í starfsemi Íslandsstofu en ég mat það svo að á þessum tímamótum væri rétt að nýr framkvæmdastjóri tæki við stjórnartaumunum. Ég þakka starfsfólki Íslandsstofu og öðrum samstarfsaðilum fyrir frábært samstarf,“ sagði Jón Ásbergsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu.

Björgólfur Jóhannsson, formaður stjórnar Íslandsstofu: „Það eru spennandi tímar framundan hjá Íslandsstofu. Gríðarmargt hefur áunnist á undanförnum árum undir forystu Jóns Ásbergssonar sem hefur unnið óeigingjarnt starf, af miklum metnaði og fagmennsku. Það var eindregin ósk nýrrar stjórnar þegar ljóst var að Jón vildi láta af starfi framkvæmdastjóra að hann myndi áfram ljá okkur krafta sína í nýju hlutverki. Nú horfum við til framtíðar og það er ljóst að breytt rekstrarform gefur okkur tækifæri til að halda áfram að sækja fram af krafti fyrir íslenskt atvinnulíf.“

Deila