Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
26. mars 2019

Opnunarfundur útflutnings- og markaðsráðs

Opnunarfundur útflutnings- og markaðsráðs
Fyrsti fundur nýstofnaðs útflutnings- og markaðsráðs var haldinn í gær á Icelandair Hótel Reykjavík Natura.

Hlutverk ráðsins er að marka, samþykkja og fylgjast með framkvæmd á langtímastefnumótun stjórnvalda og atvinnulífs fyrir markaðssetningu og útflutning. Í útflutnings- og markaðsráði sitja 41 fulltrúi, auk varamanna og var meginþorri þeirra samankominn á hótel Natura á þessum fyrsta fundi.

Utanríkisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson sem jafnframt er formaður ráðsins, ávarpaði fundargesti. Sagði hann það sérstaklega ánægjulegt að útflutnings- og markaðsráðs hafi orðið að veruleika. Kvaðst hann binda miklar vonir við samstarf Íslandsstofu og ráðsins við langtímastefnumótun stjórnvalda og atvinnulífs fyrir útflutning og ræddi mikilvægi verkefnanna sem framundan eru í þessum málefnum: „Við Íslendingar eigum í kapphlaupi við þjóðir heims um bætt lífskjör. Í þeirri keppni fæst ekkert gefið. Hvort við Íslendingar náum árangri í þeirri keppni er undir okkur sjálfum komið.“

Nefndi hann einnig að við Íslendingar þyrftum að tileinka okkur bætt vinnubrögð og hætta að treysta um of á heppnina eins og okkur er tamt: „Ef við ætlum okkur raunverulega að keppa við aðrar þjóðir, ef við ætlum okkur raunverulega að auka útflutningsverðmæti okkar, ef við ætlum raunverulega að ná og viðhalda hér lífsgæðum til lengri tíma, ef við ætlum okkur raunverulega að skapa hér skilyrði til að tryggja að við verðum áfram í fremstu röð meðal þjóða, þá verðum við að tileinka okkur ný vinnubrögð. Þetta er hugmyndin að bak breytingum á Íslandsstofu. Þetta er hugmyndin að baki útflutnings- og markaðsráði. Þetta er okkar verkefni.“

Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu greindi frá breytingum sem orðið hafa á skipulagi og rekstri Íslandsstofu undanfarið. Hann kynnti einnig vinnu sem ráðist hefur verið í við að greina betur útflutning frá Íslandi og skiptingu útflutningsverðmæta eftir atvinnugreinum.

Þá gerði Pétur grein fyrir næstu skrefum í yfirstandandi stefnumótunarvinnu fyrir markaðssetningu og útflutning á Íslandi. Framundan eru vinnustofur sem Íslandsstofa mun standa að í byrjun apríl nk. víðsvegar um landið, í samstarfi við atvinnuþróunarfélögin og Markaðsstofur landshlutanna. Boðað verður til funda á sex stöðum á landinu með hagsmunaaðilum á hverju svæði þar sem haft verður að leiðarljósi að kortleggja þá þætti sem stuðlað geta að vexti og framþróun á hverju landsvæði fyrir sig. í kjölfarið á landshlutavinnustofunum verða einnig haldnar vinnustofur í Reykjavík með einstökum atvinnugreinum í samvinnu við hagsmunasamtök viðkomandi greina.

Nánar um útflutnings- og markaðsráð


Deila