Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
18. maí 2014

Portúgölsk saltfiskuppskrift varð að draumaferð til Íslands

Portúgölsk saltfiskuppskrift varð að draumaferð til Íslands
Ungt par frá Portúgal, þau Rute Arsénio og Bruno Sequeira, heimsótti Ísland í fyrsta skipti fyrr í þessum mánuði. Íslandsferðina hlutu þau í vinning fyrir bestu saltfiskuppskriftina í uppskriftasamkeppni í tengslum við markaðsverkefni sem Íslandsstofa stendur fyrir í samstarfi við saltfiskframleiðendur.

Ungt par frá Portúgal, þau Rute Arsénio og Bruno Sequeira, heimsótti Ísland í fyrsta skipti fyrr í þessum mánuði. Íslandsferðina hlaut Rute í vinning fyrir bestu saltfiskuppskriftina í uppskriftasamkeppni í tengslum við markaðsverkefni sem Íslandsstofa stendur fyrir í samstarfi við saltfiskframleiðendur. Síðar í mánuðinum munu vinningshafar í uppskriftasamkeppninni á Spáni koma til landsins, en markaðsverkefnið er einnig í gangi þar og á Ítalíu.

Þau Rute og Bruno dvöldu á Íslandi í fjóra daga og skipulagði Íslandsstofa dagskrá fyrir þau til að kynna þeim upprunaland saltfisksins. Farið var í humar- og saltfiskvinnslu í Þorlákshöfn þar sem framleiddur er gæðasaltfiskur sem endar á diski neytenda í Portúgal, fylgst með lífinu á höfninni í Grindavík, farið í Bláa lónið og að sjálfsögðu smakkað á íslenskum kræsingum af ýmsu tagi.

Það hafði lengi verið draumur Rute að koma til Íslands en aldrei hafði hún haft efni á því: „Þegar ég sá auglýsinguna um samkeppnina og Íslandsferðina á Facebook síðunni bacalhauislandia.pt hugsaði ég með mér hvort það væri ekki komið að mér“ segir Rute. „Ég ákvað að slá til og sendi inn mína uppáhalds saltfiskuppskrift og þegar mér var tilkynnt að ég væri á leiðinni til Íslands varð ég himinlifandi!“ segir Rute.

Mikil hefð er fyrir neyslu á saltfiski í Portúgal og segir portúgalskt máltæki að það séu til 1001 saltfiskuppskrift þar í landi. Rute sér svo sannarlega ekki eftir þeirri ákvörðun að senda inn sína saltfiskuppskrift fyrir síðustu jól: „Þessir dagar á Íslandi hafa verið draumi líkastir. Við Bruno höfum átt hérna yndislega daga sem munu aldrei gleymast. Núna mun ég hugsa til Íslands með hlýjum huga í hvert einasta skipti sem ég borða saltfisk og það er ekki svo sjaldan“.

Deila