Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
14. nóvember 2014

Ráðstefnan You Are in Control skapar nýjan samstarfsgrundvöll skapandi greina

Ráðstefnan You Are in Control skapar nýjan samstarfsgrundvöll skapandi greina
Ráðstefna skapandi greina, You Are In Control (YAIC), var haldin í Reykjavík í sjöunda sinn dagana 3. og 4. nóvember. Um 200 manns sóttu ráðstefnuna í ár þar sem áhersla var lögð á verkefni og skapandi fólk sem vinnur þvert á eða milli listgreina.

Ráðstefna skapandi greina, You Are In Control (YAIC), var haldin í Reykjavík í sjöunda sinn dagana 3. og 4. nóvember í Bíó Paradís.  Þemað í ár var Skapandi samsláttur (e. Creative Synergy), þar sem áhersla var lögð á verkefni og skapandi fólk sem vinnur þvert á eða milli listgreina og var rýnt í hvaða nýju tækifæri er að finna í þessum samslætti. Um 200 manns sóttu ráðstefnuna í ár.

Meðal fyrirlesara voru Christine Boland, en hún ræddi um og spáði fyrir straumum á sviði tísku, hönnunar og neyslumynstri á meðan bandaríski tónlistarmaðurinn Zebra Katz sýndi óhefðbundna tónlistarverkið Champagne is my medium, en Zebra vinnur þvert á listgreinar í tónlistasköpun sinni, m.a. á sviði tísku. Zebra kom einnig fram á Iceland Airwaves hátíðinni í ár.

Fyrirlestur Ragnars Kjartanssonar listamanns var vel sóttur en Ragnar fjallaði um ást, virðingu og samstarf en Ragnar hefur skapað sér sterka stöðu með ögrandi innsetningum og er þegar í hópi þekktustu íslensku listamanna. Vala Halldórsdóttir, innihaldsstýra QuizUp, ræddi um mikla velgengni QuizUp spurningaleiksins, en hann náði til yfir einnar milljón notenda á fyrstu vikunni og er nú spilaður víðsvegar í heiminum. Vala sagði m.a. að til að koma hugmynd sem þessari á framfæri væri nauðsynlegt að búa yfir miklum eldmóði og vera tilbúin til að leggja á sig stöðuga endursköpun.

Óvenjuleg nálgun Nelly Ben Hayoun
Síðust á svið var franski hugmyndahönnuðurinn Nelly Ben Hayoun en útgangspunkturinn í hennar verkum er ‚Designing the impossible‘ eða að hanna hið ómögulega. Verk hennar eru oft á tíðum umdeild og kalla fram sterk viðbrögð hjá öðrum, t.a.m. hugmynd hennar um að framleiða orku úr látnu fólki. Hún hefur starfað náið með vísindamönnum að ýmsum verkum og má þar nefna  eldgos í stofunni og svarthol í eldhúsvaskinum heima. Þá stofnaði Nelly The International Space Orchestra, hljómsveit sem samanstendur af öllum helstu ráðamönnum innan NASA, en fæstir höfðu reynslu af hljóðfæraleik áður. Markmið Nelly með þessari nálgun er að skapa vettvang til rökræðna og finna þannig lausnir á flóknum atriðum og hlutum og skapa eitthvað nýtt sem þó byggir á stöðugri grunni en mörg önnur nýsköpun.

Að fyrirlestrum loknum var boðið upp á ýmsar spennandi vinnustofur og viðburði en má þar nefna Fab lab, sköpun með notkun stafrænnar tækni og heimildarmyndina International Space Orchestra þar sem sýnt er frá vegferð þessarar sérstæðu hljómsveitar.
Um kvöldið var blásið til lokahófs á veitingastaðnum Mar en þar komu ráðstefnugestir saman og skemmtu sér hið besta við undirleik íslensku hljómsveitarinnar Good Moon Dear.

You Are In Control ráðstefnan er framleidd af Íslandsstofu í samstarfi við miðstöðvar skapandi greina: Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar (ÚTÓN), Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, Kvikmyndamiðstöð Íslands, Hönnunarmiðstöð Íslands, Samtök íslenskra leikjaframleiðanda, Miðstöð íslenskra bókmennta, Leiklistasamband Íslands og Íslensku tónverkamiðstöðina.

Sjáið myndir frá ráðstefnunni á Facebook síðu YAIC

Deila