Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
9. október 2015

Saltfiskhátíð í Somma Vesuviana á Ítalíu

Saltfiskhátíð í Somma Vesuviana á Ítalíu
Íslenskur saltfiskur var í aðalhlutverki á fjölsóttri saltfiskhátíð „Somma e Sua Eccellenza il Baccalà“ sem fór fram dagana 2.-4. október í bænum Somma Vesuviana, í útjaðri Napólí á Ítalíu.

Íslenskur saltfiskur var í aðalhlutverki á fjölsóttri saltfiskhátíð „Somma e Sua Eccellenza il Baccalà“ sem fór fram dagana 2.-4. október í bænum Somma Vesuviana, í útjaðri Napólí á Ítalíu. Mikill fjöldi sótti hátíðina en þetta er annað árið í röð sem Íslendingar standa sameiginlega að kynningu þar.

Ítalía er ekki stærsti markaður Íslendinga fyrir saltfisk en er það land sem leggur einna mest upp úr gæðum og greiðir hæsta verðið. Í Somma Vesuviana er mjög mikil þekking og hefð fyrir neyslu á saltfiski og líklega ekki margir staðir í heiminum þar sem íslenskur saltfiskur hefur eins sterka stöðu. Fjölmargir veitingastaðir tóku þátt í hátíðinni og buðu upp á mjög fjölbreytta saltfiskrétti sem almenningur gat keypt gegn vægu gjaldi, en allur saltfiskurinn á staðnum var frá Íslandi. Íslenska svæðið var vinsælt en þar gat almenningur kynnt sér íslenskan saltfisk. Einnig var boðið upp á getraun þar sem einum heppnum þátttakanda, með svörin á hreinu, gafst kostur á að vinna ferð til Íslands. Sigurvegari var Anna Rauccio frá bænum Pozzuoli í úthverfi Napólí. 

Þátttaka Íslands í hátíðinni er liður í markaðsverkefninu „Saltaðar þorskafurðir í Suður Evrópu“ sem Íslandsstofa hefur umsjón með í samstarfi við Íslenska saltfiskframleiðendur (ÍSF). Nokkrir framleiðendur og söluaðilar sem taka þátt í verkefninu heimsóttu hátíðina.

Vefsíða um verkefnið og tenglar inn á samfélagsmiðla á Ítalíu.
Facebook
Youtube
Vefsíða

Nánari upplýsingar veita:

Guðný Káradóttir, gudny@islandsstofa.is og 
Björgvin Þór Björgvinsson, bjorgvin@islandsstofa.is eða í síma 511 4000.

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá hátíðinni

Deila