Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
11. maí 2018

Stjórn Íslandsstofu heimsækir Suðurland

Stjórn Íslandsstofu heimsækir Suðurland
Stjórn Íslandsstofu lagði upp í ferð um Suðurlandið dagana 8. og 9. maí sl. þar sem þau heimsóttu fjölmarga aðila og kynntu sér atvinnuþróun og starfsemi á svæðinu.

Gestgjafar og fararstjórar í ferðinni voru þeir Bjarni Guðmundsson, framkvæmdastjóri SASS (Samtök sunnlenskra sveitafélaga) og formaður SASS, Gunnar Þorgeirsson, en þeir skipulögðu alla dagskrá og fræddu stjórnarmenn um sveitirnar allt frá Reykjavík austur að Höfn í Hornafirði.

Fyrsti viðkomustaður var nýsköpunarfyrirtækið Omega Algae í Hveragerði, en þar fer fram fer ræktun á þörungum. Hitti hópurinn að máli Hjálmar Skarphéðinsson framkvæmdastjóra sem greindi frá starfsemi fyrirtækisins, sem hefur það markmið að framleiða kjörfæði úr Omega fitusýrum sem hægt er að blanda í matvæli, en rannsóknir sýna að efnið geti hugsanlega komið í veg fyrir ýmsa sjúkdóma.

Næst var Sæbýli á Eyrarbakka heimsótt. Ingólfur Arnarson stöðvarstjóri sagði frá framleiðsluferlinu á sæeyrum frá ræktun fram að útflutningi, en sæeyru eru nýlunda á matseðlinum á ýmsum veitingastöðum. Fyrirtækið flytur afurðir sínar aðallega út til Asíu, þar sem sæeyru þykja lostæti og bitinn er seldur á allt að 70 dollara á veitingastöðum.

Á Selfossi kom hópurinn við í Set röraverksmiðju. Þar tók Bergsteinn Einarsson, framkvæmdastjóri á móti stjórninni og fór yfir sögu fyrirtækisins, skýrði frá framleiðslunni og sýndi gestunum hluta af svæðinu, sem telur um 8.500 fermetra undir þaki.

Því næst var förinni heitið í Friðheima í Bláskógabyggð þar sem þau Knútur Rafn Ármann og Helena Hermundardóttir, eigendur og staðarhaldarar, tóku vel á móti gestunum. Hópurinn fékk kynningu á hugmyndafræðinni að baki tómata- og hestaræktuninni, sem byggir einkum á sérstöðu og gæðum. Starfsemi Friðheima hefur vaxið gríðarlega á undanförnum árum, en eftir níu ár í rekstri tekur staðurinn nú á móti um 160 þúsund gestum og uppselt er þar á sumrin.

Ásborg Arnþórsdóttir, ferðamálafulltrúi uppsveita Árnessýslu, sagði frá áformum sem miða að því að fá ferðamenn til að ferðast víðar og dvelja lengur í sveitunum. Aukin afþreying er í boði á staðnum sem hjálpar til við að fá fólk til að staldra lengur við og jafnvel gista á svæðinu. Fyrirtæki í ferðaþjónustu eru endalaus uppspretta nýjunga þar sem fersk afurð og gæði eru í fyrirrúmi, að sögn Ásborgar.

Hjá glerverksmiðjunni Samverki á Hellu hitti hópurinn að máli Örn Þór Alfreðsson framkvæmdastjóra fyrirtækisins sem fór yfir sögu Samverks og sagði frá glerframleiðslu á Íslandi. Fyrirtækið hefur lagt áherslu á sérvinnslu á gleri og hugar á stækkun framleiðslunnar á komandi árum.

Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra, kom við og ræddi stuttlega um stöðu sveitafélagsins, sem hann sagði með ágætum og nefndi m.a. hækkandi íbúatölu og sagði frá því að á svæðinu fer fram næstöflugasta skógrækt á Íslandi.

Á Vík í Mýrdal tóku þeir Ásgeir Magnússon, sveitarstjóri, og Elías Guðmundsson á móti stjórnarmeðlimum. Elías er m.a. eigandi starfseminnar á Icelandair hótel Vík og mun sjá um rekstur á nýju hóteli, Hótel Kríu sem opnar 1. júlí nk. Þeir Ásgeir og Elías sögðu frá ferðaþjónustunni á Vík og sýndu gestunum svæðið. Ásýnd staðarins, verslun og þjónusta hefur tekið stakkaskiptum á undanförnum árum í kjölfar hraðrar aukningar ferðamanna sem þangað sækja, en ætla má að um 1,7 milljón manns hafi farið um Vík á síðastliðnu ári. Þá hefur íbúafjöldinn aukist um 33% á sl. 3 árum.

Stutt stopp var tekið á hótel Laka í Efri Vík þar sem Eva Björk Harðardóttir hótelstjóri talaði við gestina og sagði frá starfsemi hótelsins.

Á Kirkjubæjarklaustri var eldisstöðin Klausturbleikja heimsótt þar sem hópurinn hitti að máli Önnu Magdalenu Boda, rekstrarstjóra og Halldór Orra Hjaltason sem starfar á fjármálasviði Fishproducts Iceland, sem eru eigendur Klausturbleikju. Þau greindu frá starfsemi fyrirtækisins og fóru með gestina í vettvangsferð í eldisstöðina við Teygingarlæk.

Næst lá leiðin austur í Fjallsárlón, sem er skammt vestan við Jökulsárlón og fór hópurinn í siglingu á lóninu undir leiðsögn Steinþórs Arnarsonar, eins eig­enda Fjalls­ár­lóns ehf. Steinþór sagði frá sögu og rekstri staðarins, sem er að sigla inn í sitt 6. starfsár og starfa þar 20 manns á háannatíma. Lónið tilheyrir nú Vatnajökulsþjóðgarði, sem hefur haft í för með sér ýmis flækjustig og aukakostnað á stundum, að sögn Steinþórs. Að jafnaði sigla um 13-14 þúsund manns á lóninu ár hvert.

Í Fjósinu í Flatey á Mýrum hittu ferðalangarnir fyrir Hjalta Þór Vignisson framkvæmdastjóra sölu- og markaðsmála Skinney Þinganess, en þeir eru eigendur að Fjósinu. Hjalti sagði frá starfsemi Skinney Þinganess og kynnti fyrirhugaða opnun á Fjósinu, sem er e.k. ferðamannafjós þar sem hægt verður að horfa yfir fjósið sem telur um 200 mjólkandi kýr. Þá verður veitingastaður á staðnum sem býður upp á heimamat, en fyrirhugað er að opna þjónustuna fyrir almenningi 1. júní nk. Þá ræddi hann blómlega starfsemi í ferðaþjónustu á svæðinu en þar er m.a. boðið upp á kajak-, snjósleða-, og fjallajeppaferðir.

Þegar komið var á Höfn í Hornafirði átti hópurinn stutt spjall við þá Björn Inga Jónsson bæjarstjóra og Sæmund Helgason, formann bæjarráðs. Því næst lá leiðin í Gömlubúð, gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs. Helga Árnadóttir, aðstoðarmaður þjóðgarðsvarðar á Suðursvæði, fór yfir markmið og rekstur þjóðgarðarins, en þau eru m.a. að vernda svæðið en jafnframt að veita fólki aðgang að þjóðgarðinum. Þessi öndverðu markmið geta verið áskorun, að sögn Helgu, þar sem Skaftafell eitt og sér fær um 700 þúsund heimsóknir ár hvert.

Að lokum fékk hópurinn kynningu frá Þorvarði Árnasyni, forstöðumanni Rannsóknasetur HÍ á Hornafirði, sem greindi frá niðurstöðum rannsóknar sem tók til félagslegra þolmarka íbúa Suðurlands gagnvart ferðamönnum- og þjónustu, en rannsóknin er áhersluverkefni SASS. Í stuttu máli voru fyrstu niðurstöður þær að þrátt fyrir fjölda jákvæðra viðbragða, s.s. aukin fjölbreytni og bætt þjónusta í kjölfar fjölgunar ferðamanna nefnd í svörunum, eru Sunnlendingar að jafnaði neikvæðari fyrir auknum fjölda ferðamanna en íbúar í öðrum landshlutum. Þetta er umhugsunarefni og vert að skoða nánar, að sögn Þorvarðar.

Stjórnarmenn Íslandsstofu vilja þakka öllum sem þau hittu í ferð sinni um Suðurlandið fyrir mjög góðar móttökur. Sérstakar þakkir fá þeir Gunnar Þorgeirsson og Bjarni Guðmundsson hjá SASS fyrir einstakt skipulag og fararstjórn. Þar sem ferðin stóð aðeins yfir í tvo daga var eðli málsins samkvæmt einungis hægt að kynna sér brot af þeirri blómlegu starfsemi sem fram fer á Suðurlandi, og t.a.m. ekki hægt að heimsækja Vestmannaeyjar að þessu sinni. Af heimsókninni að dæma er þó ljóst að mikil gróska ríkir í atvinnuþróun og ferðaþjónustu á svæðinu.

Deila