Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
14. febrúar 2011

Tækifæri í ferðaþjónustu á indverska markaðinum

Sýningarbás Íslendinga - Visit Iceland - vakti mikla athygli á ferðasýningunni Satte sem haldin var í Nýju Delí í janúarlok. Stöðugur straumur gesta var á íslenska básinn og sýndu Indverjar mikinn áhuga á Íslandi sem áfangastað. "Íslensku fyrirtækin sem tóku þátt í sýningunni eru ánægð með útkomuna en tækifærin á indverska markaðinum felast einkum í stuttum ferðum til Íslands, í tengslum við Evrópuferðir," segir Berglind Steindórsdóttir hjá Íslandsstofu. "Indland er gríðarlega stór og spennandi markaður sem krefst mikillar vinnu, og er hún aðeins farin að skila sér."

Um 600 fyrirtæki í ferðaþjónustu frá 30 löndum sýndu á Satte að þessu sinni. Þetta er í annað sinn sem íslensk fyrirtæki eru á meðal þátttakenda og mættu þau vel undirbúin til leiks, að sögn Berglindar. Sendiráð Íslands í Nýju-Delí, svo og starfsfólk Icelandair þar í borg, aðstoðuðu íslensku fyrirtækin við undirbúninginn og komu á fundum við helstu ferðaskrifstofur á svæðinu.

Deila