Tækifæri í NATO útboðum kynnt á fundi
Fulltrúar 30 fyrirtækja úr ýmsum atvinnugreinum sóttu fund þar sem kynnt voru tækifæri til þátttöku í útboðum á vegum Atlantshafsbandalagsins (NATO). Hingað til lands komu tveir fulltrúar frá NATO, Javier Carrasco Pena, yfirmaður útboðsmála í höfuðstöðvum NATO og Danny Hovaere, yfirmaður innkaupa hjá yfirherstjórn NATO.
Í máli þeirra kom fram að fjölmargar stofnanir og skrifstofur bjóða út allt frá einföldum vöru- og þjónustukaupum til flóknustu framkvæmda. Upplýsingar um útboð eru birtar á vefsíðum þeirra og því nauðsynlegt að heimsækja þær reglulega til að fylgjast með. Unnið er að því að auka yfirsýn fyrir seljendur með því að sameina þessa vefi. Báðir lögðu áherslu á mikilvægi þess að áhugasöm fyrirtæki settu sig í samband við fastanefnd Íslands hjá NATO. Í mörgum tilvikum er þess krafist að fastanefndin votti að fyrirtæki séu hæfir (e. eligible) seljendur, en einnig fær fastanefndin sendar upplýsingar um útboð og getur komið upplýsingum um fyrirtæki á framfæri við þann sem hefur umsjón með viðkomandi útboði.
Eins og almennt gildir við tilboðsgerð er nauðsynlegt að kynna sér vel útboðsgögn, gæta þess að uppfylla öll skilyrði sem þar eru sett m.a. varðandi gagnaskil og tímamörk, og svara skilmerkilega ef óskað er eftir nánari upplýsingum. Eins er mikilvægt að skoða vel ákvæði sem tilgreina hvort verið sé að leita að ódýrstu lausninni eða mestu virði, þannig að þau fyrirtæki sem fyrst og fremst keppa um verkefni á grundvelli gæða séu ekki að bjóða í verkefni þar sem fyrst og fremst er horft í verðið.
Í lok fundar sagði Erna Björnsdóttir, verkefnisstjóri stuttlega frá evrópsku verkefni um opinber útboð sem Íslandsstofa tekur þátt í. Verkefnið miðar m.a. að því að auka vitund smærri fyrirtækja um tækifæri sem felast í opinberum útboðum og safna og miðla upplýsingum um erlend útboð. Erna kallaði einnig eftir samstarfi við fyrirtæki, sem hafa reynslu af þátttöku í erlendum útboðum, og óskaði eftir aðstoð þeirra við að miðla þeirri reynslu áfram svo fleiri íslensk fyrirtæki yrðu samkeppnishæf á þessu sviði.
Að loknum vel heppnuðum fundi áttu fulltrúar NATO samtöl við sjö fyrirtæki þar sem tækifæri gafst til að ræða nánar einstök verkefni.