Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
17. desember 2013

The Secret Life of Walter Mitty felur í sér ómetanlega landkynningu

The Secret Life of Walter Mitty felur í sér ómetanlega landkynningu
Ísland er sögusvið kvikmyndarinnar The Secret Life of Walter Mitty sem frumsýnd er nú í desember. Íslandsstofa hefur, undir formerkjum Inspired by Iceland, unnið að því í náinni samvinnu við 20th Century Fox og erlenda fjölmiðla að kynna land og þjóð í tengslum við frumsýningu myndarinnar.

Ísland er sögusvið kvikmyndarinnar The Secret Life of Walter Mitty  sem frumsýnd er nú í desember. Kvikmyndin er jólamynd kvikmyndaversins 20th Century Fox í ár og er því mikið lagt í markaðssetningu hennar. Stór landkynningartækifæri eru fyrir Ísland samhliða frumsýningu myndarinnar enda er landið í forgrunni í fjölmörgum senum í myndinni.

Íslandsstofa hefur, undir formerkjum Inspired by Iceland, unnið að því í náinni samvinnu við 20 th Century Fox og erlenda fjölmiðla að kynna land og þjóð í tengslum við frumsýningu myndarinnar.

Íslandsstofa átti í samstarfi við Fox Studios á forsýningu kvikmyndarinnar í París 9. desember s.l. að viðstöddum fulltrúum frá um 50 frönskum fjölmiðlum. Samhliða var efnt til spurningaleikja um Ísland í Frakklandi í samstarfi við m.a. National Géographic (vefsíða og sjónvarp), Canal+ (sjónvarp) og RTL (útvarp) þar sem ferðir til Íslands voru veittar í vinning.

Einnig stóð Íslandsstofa fyrir sérstakri forsýningu á kvikmyndinni fyrir breska miðla í London 16. desember. Þar fengu fjölmiðlar að kynnast íslenskri matargerð og Einar Hansen Tómasson, verkefnastjóri Film in Iceland, kynnti Ísland sem ákjósanlegt sögusvið kvikmynda á undan sýningu myndarinnar.

Þá skipulagði Íslandsstofa  blaðamannaferð til Íslands þar sem áhrifamiklir fjölmiðlar frá Bandaríkjunum heimsóttu tökustaði myndarinnar og kynntu sér Ísland. Í liðinni viku, þann 11. og 12. desember, var farið með hóp af fjölmiðlum á Suð-Austurland en þar á meðal voru sjónvarpsstöðvarnar Fox, CBS, NBC og VH1. Fulltrúar frá Ríki Vatnajökuls (Árdís Erna Halldórsdóttir og Guðrún Sigurðardóttir) tóku vel á móti hópnum á Höfn og aðstoðuðu jafnframt við að setja saman ævintýralega dagskrá á svæðinu. Mikil ánægja ríkti meðal gestanna en markaðsstjóri 20th Century Fox, Sue Warde, sem var með í för var svo yfir sig hrifin að hún hafði eftirfarandi að segja um upplifunina: “Iceland awakens all of the senses as a visually stunning country that, in both landscape and its people, touches your soul. That is #icelandsecret to me..,” en þarna er hún að vitna í vetrarherferð Inspired by Iceland/ Ísland – allt árið sem ber nafnið “Share the Secret”.
Ferðin var unnin í nánu samstarfi við 20th Century Fox. Gaman er að segja frá því að Ben Stiller hefur nú þegar lýst yfir ást sinni á Íslandi í spjallþáttum vestanhafs hjá bæði Ellen Degeneres og Conan O’Brien.

Ljóst er að kvikmyndir sem Walter Mitty varpa kastljósinu á land og þjóð og skapa þannig ómetanleg tækifæri til að kynna Ísland bæði sem áfangastað og sögusvið kvikmynda í framtíðinni.
Þá gætu fjölmörg tækifæri skapast fyrir ferðaþjónustu í tengslum við útkomu myndarinnar, ekki síst í formi svokallaðrar kvikmyndaferðamennsku, en myndin býður m.a. upp á möguleika í vöruþróun á sérstökum ferðum á tökuslóðir myndarinnar, í líkingu við þær ferðir sem þegar eru til um slóðir Game of Thrones.

Nánari upplýsingar veita:
Daði Guðjónsson, dadi@islandsstofa.is 

Deila