Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
15. maí 2014

Truenorth hlýtur Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2014

Truenorth hlýtur Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2014
Síðdegis í dag veitti Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, kvikmyndafyrirtækinu Truenorth Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2014 við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.

Síðdegis í dag veitti Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, kvikmyndafyrirtækinu Truenorth Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2014 við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Það voru Helga Margrét Reykdal, framkvæmdastjóri og Leifur B. Dagfinnsson, stjórnarformaður Truenorth, sem veittu verðlaununum viðtöku fyrir hönd fyrirtækisins. 

„Truenorth er í fararbroddi þeirra fyrirtækja sem hafa sérhæft sig í að þjóna erlendum aðilum sem vilja kvikmynda á Íslandi – hvort sem það eru heilar kvikmyndir, sjónvarpsþættir, auglýsingar eða myndbönd. Mikil fagmennska, dugnaður og ósérhlífni einkennir fyrirtækið, starfsmenn og stjórnendur," sagði Vilborg Einarsdóttir, formaður valnefndar og stjórnar Íslandsstofu um fyrirtækið. 

Af þeim verkefnum sem fyrirtækið hefur sinnt á liðnum árum má nefna stórmyndir á borð við Flags of Our Fathers, Oblivion, Walter Mitty og Noah. Undanfarin tvö ár sinnti fyrirtækið yfir 50 erlendum verkefnum þar af voru átta stór kvikmyndaverkefni. Erlendar tekjur fyrirtækisins þessi tvö ár námu um 4.8 milljörðum króna í heildina.

Talið er að í dag séu að minnsta kosti 1600 störf sem tengist hér beint og óbeint kvikmyndagerð. Þá er áætlað að þjónustufyrirtæki í kvikmyndagerð kaupi að meðaltali um 30 þúsund gistinætur ár hvert, kaupi tvö þúsund flugsæti og leigi 250-300 bílaleigubíla dag hvern meðan verkefnin eru í gangi. Flest eru verkefnin unnin úti á landi og gjarna utan hefðbundins ferðamannatíma. Við tökur á kvikmyndinni Thor 2 var Truenorth t.d. með um 500 manns í gistingu á 26 stöðum á Suðurlandi í október sl. og munar um minna á þessum árstíma.

Um útflutningsverðlaunin

Tilgangurinn með veitingu útflutningsverðlaunanna er að vekja athygli á  þjóðhagslegu mikilvægi gjaldeyrisöflunar og alþjóðlegra viðskipta og heiðra þá sem hafa náð sérstaklega góðum árangri í sölu og markaðssetningu á íslenskum vörum og þjónustu erlendis.

Útflutningsverðlaunin eru nú veitt í 26. sinn en þau voru fyrst veitt árið 1989. Meðal annarra fyrirtækja er hlotið hafa verðlaunin í gegnum tíðina eru Össur, Hampiðjan, Trefjar, Delta, og Ferðaskrifstofa bænda og á síðasta ári hlaut HB Grandi verðlaunin.

Úthlutunarreglur kveða á um að Útflutningsverðlaun forseta Íslands skuli veitt fyrirtækjum eða einstaklingum, íslenskum eða erlendum, fyrir árangursríkt starf að útflutningi á íslenskum vörum eða þjónustu á erlendum markaði. Veiting verðlaunanna tekur mið af verðmætisaukningu útflutnings, hlutdeild útflutnings í heildarsölu, markaðssetningu á nýjum markaði, ásamt fleiru.

Í úthlutunarnefndinni sátu að þessu sinni: Þórunn Sveinbjörnsdóttir frá Alþýðusambandi Íslands, Ingjaldur Hannibalsson frá viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, Björgólfur Jóhannsson frá Landsnefnd Alþjóðaviðskiptaráðsins, Örnólfur Thorsson frá embætti forseta Íslands og Vilborg Einarsdóttir frá Íslandsstofu, en Íslandsstofa ber ábyrgð á undirbúningi og kostnaði við verðlaunaveitinguna.

Hér að neðan má sjá fleiri myndir frá athöfninni

Deila