Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
8. október 2015

Útflutningur matvæla - Hvað er í kortunum?

Útflutningur matvæla - Hvað er í kortunum?
Niðurstöður kortlagningar á útflutningi íslenskra matvæla eru nú aðgengilegar á vef Íslandsstofu.

Þann 28. september sl. var kynnt kortlagning tengd útflutningi íslenskra matvælafyrirtækja sem Íslandsstofa lét framkvæma. Í inngangserindi sínu greindi Guðný Káradóttir, forstöðumaður matvælasviðs Íslandsstofu frá tilgangi og markmiðum kortlagningarvinnunnar, en henni er ætlað að gefa yfirsýn og innsýn í stöðu útflutnings helstu framleiðslugreina í matvælageiranum. Markmið verkefnisins er að varpa ljósi á tækifæri og framtíðarsýn í matvælageiranum. Niðurstöðurnar verða nýttar til að þróa þjónustuframboð Íslandsstofu fyrir matvælageirann, meta áherslumarkaði og kanna áhuga fyrirtækjanna á að taka þátt í markaðssamstarfi. Væntingar eru um að þessi vinna nýtist í stefnumörkun og mótun á aðgerðum sem ætlunin er að efla enn frekar með tilkomu aukins fjármagns í kynningar- og markaðsstarf fyrir greinina en ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt að leggja á næstu fimm árum 80 milljónir króna árlega til þessa verkefnis og mun Íslandsstofa hafa umsjón með framkvæmd þess.

Jóna Karen Sverrisdóttir frá Gallup kynnti helstu niðurstöður spurningakönnunar sem lögð var fyrir um 300 fyrirtæki í matvælageiranum. Bryndís Eiríksdóttir, verkefnastjóri á matvælasviði kynnti tölfræðigreiningu á stöðu útflutnings íslenskra matvæla, tækifærum í greininni og viðhorfum aðila í matvælageiranum. Guðný fjallaði síðan um hvernig hægt er að vinna úr niðurstöðunum, hvert skuli stefna og hver birtingarmynd íslenskra matvæla gæti orðið í netheimum ef allir vinna sameiginlega að því að byggja upp jákvætt orðspor íslenskra matvæla með samræmdri stefnu.

Í lok fundar tóku Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður stjórnar Samtaka iðnaðarins, Kolbeinn Árnasson, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna þátt í pallborðsumræðum. Rætt var um tækifæri og ógnanir fyrir útflutning íslenskra matvæla og viðhorfi til samstarfs innan greinarinnar. Voru fulltrúar hagsmunasamtakanna sammála um mikilvægi samstarfs og að sameiginleg sýn og stefna geti orðið öllum greinunum til framdráttar.

Guðrún tók fram mikilvægi þess að segja söguna af framleiðslunni og uppruna vörunnar en sagan verður að vera sönn. Samkvæmt Sigurði hefur útflutningur á íslenskum landbúnaðarvörum gengið vel þar sem varan er tengd við upprunann en það er mikilvægt að fylgja útflutningnum eftir og setja sér skýr markmið. Kolbeinn tók fram að hingað til hafi fiskurinn verið notaður til að auglýsa Ísland en það mætti snúa þessu við og nota Ísland til að kynna íslensk matvæli. Fram kom að það eru ákveðnir þættir sem eru sameiginlegir fyrir ólíkar greinar matvælaframleiðslu eins og gæði, ferskleiki og hreinleiki. Einnig var rætt um þau tækifæri sem aukinn fjöldi erlendra ferðamanna getur skapað fyrir sölu á íslenskum matvælum innanlands.

Jón Ásbergsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu, var fundarstjóri og stýrði pallborðsumræðum. Sambærilegur fundur verður haldinn á Akureyri þann 16. október nk. 
Sjá nánari upplýsingar um fundinn.   

Unnin var skýrsla sem byggir á niðurstöðum kortlagningarinnar og má nálgast hana hér á vef Íslandsstofu ásamt spurningakönnun Gallup.

Deila