Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
25. maí 2016

Vel sóttur fundur um þýska matvælamarkaðinn

Vel sóttur fundur um þýska matvælamarkaðinn
Þann 25. maí hélt Íslandsstofa fund um þýska matvælamarkaðinn. Þar var fjallað um útflutning matvæla til Þýskalands, þróun og einkenni markaðarins, tækifæri, kröfur og markaðshorfur. Fimm erindi voru flutt á fundinum sem var vel sóttur.

Þann 25. maí hélt Íslandsstofa fund um þýska matvælamarkaðinn. Þar var fjallað um útflutning matvæla til Þýskalands, þróun og einkenni markaðarins, tækifæri, kröfur og markaðshorfur. Fimm erindi voru flutt á fundinum sem var vel sóttur.

Björgvin Þór Björgvinsson verkefnastjóri hjá Íslandsstofu gaf yfirlit um útflutning matvæla frá Íslandi til Þýskalands, hvaða afurðir eru fluttar út og þróun síðustu ára.

Ruth Bobrich viðskiptafulltrúi í sendiráði Íslands í Berlín fjallaði almennt um þýska markaðinn og ný tækifæri út frá neysluvenjum Þjóðverja undir yfirskriftinni Food is the new Fashion. Hún tók nokkur dæmi um fyrirtæki sem eru að ná góðum árangri í Þýskalandi. Þá kynnti hún matvælasýninguna ANUGA sem haldin verður annað hvort ár í Köln í Þýskalandi og sýninguna Biofach í Nürnberg. Jafnframt kynnti hún þjónustu viðskiptafulltrúans og sendiráðsins við fyrirtæki sem hafa áhuga á þýska markaðinum.

Dr. Matthias Keller framkvæmdastjóri helstu samtaka í fiskiðnaði og upplýsingamiðstöðvar sjávarafurða í Þýskalandi fjallaði um neyslu sjávarafurða í Þýskalandi og sýndi m.a. hvaða breytingar hafa orðið þar á síðustu árum. Dr. Keller nefndi sérstaklega mikinn vöxt í sölu á afurðum í svokölluðum MAP pakkningum (Modified atmosphere packaging). Mesta aukningin þar hefur verið í sölu á MAP pakkningum í afsláttarkeðjum eins Lidl og Aldi og taldi dr. Keller að sú aukning myndi halda áfram. Nýjustu tölur sýna að þýskir neytendur sjávarafurða eru í auknum mæli farnir að velja ferskar afurðir frekar en frystivöruna, sem hefur haft mjög sterka stöðu á þýska markaðnum í gegnum árin. Dr. Keller heimsótti einnig íslensk fyrirtæki, fiskvinnslur og hagsmunaaðila í íslenskum sjávarútvegi á meðan hann dvaldi hér og hafði orð á því í erindi sínu hversu fagmennskan væri mikil hjá íslenskum fyrirtækjum sem og gæði afurðanna sem væru einstök.

Óskar Sigmundsson, eigandi og framkvæmdastjóri Marós sagði frá sinni reynslu af þýska markaðnum fyrir sjávarafurðir sem telur um 30 ár. Nýja fyrirtækið hans Marós í Cuxhaven leggur sérstaka áherslu á íslenska gullkarfann og telur Óskar að þar séu ýmis tækifæri ónýtt. Er hann að kynna karfann undir nýju vörumerki - Goldbarsch aus Island.

Snorri Jónsson frumkvöðull og eigandi fyrirtækisins Reykjavik Distillery sem framleiðir snapsa og líkjöra úr villtum íslenskum berjum og kryddi sagði frá reynslu fyrirtækisins á þýska markaðnum. Í erindi Snorra kom m.a. fram af hverju fyrirtækið hefði valið að sækja á Þýskalandsmarkað og þá sagði hann einnig frá mikilvægi þess að finna góða dreifingaraðila úti á markaðnum.

Deila