Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
28. ágúst 2018

Vettvangsferð til Frakklands 22.- 25. október nk.

Vettvangsferð til Frakklands 22.- 25. október nk.
Íslandsstofa skipuleggur vettvangsferð til Parísar fyrir framleiðendur og útflytjendur íslenskra matvæla dagana 22. - 25. október nk. Ferðin er skipulögð í samstarfi við sendiráð Íslands í Frakklandi. 

Tilgangurinn með ferðinni er að gefa útflytjendum íslenskra matvæla tækifæri á að kynna sér matvælamarkaðinn og viðskiptaumhverfið í Frakklandi, helstu dreifileiðir, strauma og stefnur á markaðnum o.fl. Ferðin getur einnig skapað grundvöll til tengslamyndunar við hugsanlega kaupendur og sérfræðinga. 

Íslandsstofa skipulagði sambærilegar vettvangsferðir fyrir íslensk matvælafyrirtæki til Bandaríkjanna sumarið 2017 og til Þýskalands í október 2017 með góðum árangri og almennri ánægju þátttökufyrirtækja. Þessi ferð verður með svipuðu sniði og þær fyrri.  

Farið verður á SIAL matvælasýninguna í París, matvælamarkaðurinn Rungis verður skoðaður undir leiðsögn sérfræðings, verslanir og matvælamarkaðir heimsóttir og þátttakendur fá kynningar á viðskiptaumhverfinu í Frakklandi ásamt því að hitta fulltrúa íslenskra fyrirtækja sem þekkja markaðinn vel. 

Þátttaka í ferðinni er kjörið tækifæri fyrir fyrirtæki sem hafa hug á að kynna sér matvælamarkaðinn í Frakklandi nánarfá aukinn skilning á viðskiptaumhverfinu og á þeim tækifærum sem eru til staðar og styrkja tengslanetið.

Þátttakendur sjá sjálfir um að bóka og greiða fyrir flug, gistingu og samgöngur til og frá flugvelli. Boðið verður upp á eina sameiginlega máltíð, aðgang að SIAL sýningunni, Rungis markaðinum og kynningarfundi með sérfræðingi. Kostnaður við þátttöku er að hámarki 50.000 kr á þátttakanda.

Áhugasamir um þátttöku eru beðnir að skrá sig hér fyrir 18. september. Skráning telst ekki bindandi.

Nánari upplýsingar veitir Bryndís Eiríksdóttir, bryndis@islandsstofa.is eða í síma 511 4000. 


Deila