Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
16. júní 2015

Viljayfirlýsing undirrituð um samstarf við Shenzhen í Kína

Viljayfirlýsing undirrituð um samstarf við Shenzhen í Kína
Í síðustu viku komu aðilar frá borginni Shenzhen í Kína á fund Íslandsstofu, ásamt Arild Blixrud, fyrrum framkvæmdastjóra Norska útflutningsráðsins. Tilgangur heimsóknarinnar var að kynna áætlanir um norrænt viðskiptasetur í Shenzhen-borg í Kína.

Í síðustu viku komu aðilar frá borginni Shenzhen í Kína á fund Íslandsstofu. Með í för var Arild Blixrud, fyrrum framkvæmdastjóri Norska útflutningsráðsins. Tilgangur heimsóknarinnar var að kynna áætlanir um norrænt viðskiptasetur í Shenzhen þar sem norrænum fyrirtækjum verður auðveldað að ná fótfestu fyrir vörur sínar og þjónustu í Kína. Viðskiptasetrið verður opnað árið 2017. 

Í lok fundar undirrituðu Jón Ásbergsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu, og Ársæll Harðarson, formaður Íslensk-kínverska viðskiptaráðsins, viljayfirlýsingar þess efnis að þeir muni kynna viðskiptasetrið fyrir íslenskum fyrirtækjum og nýta sér þjónustu þess eftir nánara samkomulagi. Fylgjum við þar með í fótspor Innovation Norway og annarra norrænna útflutnings- og kynningarstofnana.

Meðfylgjandi er kynning á viðskiptasetrinu. Þar má sjá þá hugmyndafræði sem verkefnið byggir á og yfirlit yfir þá þjónustu sem verður í boði. Þar kemur m.a. fram að til að ítreka norræn tengsl setursins keyptu þeir norska skálann (3.000m2) sem notaður var á heimssýningunni í Shanghai árið 2010 og verður hann í anddyri setursins.

Shenzhen borg er örskammt frá Hong Kong. Árið 1979 varð hún fyrst kínverskra borga til að öðlast stöðu sem „Special Economic Zone“. Efnahagsþróun á svæðinu hefur verið mjög hröð og er borgin með hæstu vergu landsframleiðsluna á hvern íbúa (GDP) allra borga í Kína. Borgarbúar eru 15 milljón talsins, en talið er að um 45 milljónir manna búi á Stór-Shenzen svæðinu (með Hong Kong og Macau) á aðeins 18.000km2 svæði.  

Deila