Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
3. maí 2021

Vinnum saman á útivelli

Vinnum saman á útivelli
Við höfum nýtt tímann afskaplega vel til að setja okkur skýra stefnu, ákveða hvernig við vinnum best saman á útivelli. Okkur er þannig ekkert að vanbúnaði að hefja nýja sókn á erlenda markaði. Við erum búin að vinna heimavinnuna.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, ávarpaði Ársfund Íslandsstofu 2021 sem sendur var út í beinni útsendingu frá Hörpu. Ávarpið má lesa hér á vefnum ásamt því sem upptaka frá fundinum er aðgengileg:

„Á ársfundi Íslandsstofu fyrir rétt rúmum þremur árum sagði ég í ræðu minni að lífskjör okkar næstu áratugi myndu ráðast af því hvernig okkur tækist til á allra næstu árum. Ég sagði jafnframt að við myndum aldrei ná því markmiði að auka hér útflutningstekjur með því að vinna hvert í sínu horni. Ég sagði við værum að spila á erfiðum útivelli og að atvinnulífið og stjórnvöld þyrftu að ganga til leiks sem eitt lið til að ná settu marki, að auka útflutningstekjur nægilega mikið til að tryggja þau lífskjör sem við viljum njóta hér á Íslandi.

Með þetta að leiðarljósi lagði ég fram og náði í gegn á Alþingi haustið 2018 frumvarpi um breytingar á lögum um Íslandsstofu. Markmið mitt með breytingum á Íslandsstofu, sem Alþingi samþykkti í fyrra, var einmitt að efla Íslandsstofu og samstarf atvinnulífs og stjórnvalda við markaðsstarf á erlendum mörkuðum, auka samþættingu og samstarf allra þeirra aðila sem koma að þessum verkefnum. Að búa til vettvang þar sem atvinnulífið og stjórnvöld geta stillt saman strengi og náð saman um langtímastefnumótun þar sem þessir aðilar gengu í takt í átt að sameiginlegu markmiði um aukna verðmætasköpun.

Ein af helstu nýjungunum sem komu til með breyttum lögum var að setja á fót Útflutnings- og markaðsráð sem nú gegnir lykilhlutverki við að móta langtímastefnu um markaðssókn á erlenda markaði og fylgja henni eftir. Í ráðinu sitja 36 fulltrúar atvinnulífs og stjórnvalda úr hinum ólíku geirum viðskipta- og atvinnulífs.

Hugmyndin var að gera stuðningskerfi útflutnings enn öflugra, samstilltara og sveigjanlegra en hingað til, þannig að þjónustan, ekki síst úti á mörkuðum, yrði framúrskarandi og hún löguð að þörfum fyrirtækjanna í þágu aukins útflutnings, markvissari markaðssetningar og aukinna fjárfestinga á hverjum tíma.

Við sáum ekki fyrir þau áföll sem síðan hafa riðið yfir. Heimsfaraldurinn hefur auðvitað haft mikil áhrif hér á landi eins og annars staðar, ekki síst á útflutningstekjur. En breytingarnar sem gerðar voru á Íslandsstofu og aukin samvinna stjórnvalda og atvinnulífs hefur reynst dýrmætt haldreipi í þessum áföllum. Vegna þeirra breytinga sem ráðist var erum við nú í miklu betri stöðu til að ná kröftugri viðspyrnu. Við höfum nýtt tímann afskaplega vel til að setja okkur stýra stefnu, ákveða hvernig við vinnum best saman á útivelli. Okkur er þannig ekkert að vanbúnaði að hefja nýja sókn á erlenda markaði. Við erum búin að vinna heimavinnuna.

Góðir fundarmenn

Þrátt fyrir að hafa að mestu þurft að liggja í vörn síðustu misseri höfum við sótt fram og náð mikilvægum áföngum. Ég nefni sem dæmi viðskiptavakt utanríkisráðuneytisins og Íslandsstofu; sólarhringsneyðarvakt sem var sett á laggirnar síðasta haust. Í gegnum viðskiptavaktina geta fyrirtæki sem eru í brýnum vanda, og sem ekki geta beðið opnunartíma ráðuneytisins, allan sólarhringinn komist í samband við utanríkisþjónustuna. Viðskiptavaktin hefur ekki síst komið til aðstoðar í Covid-19 tengdum málum og er mikilvæg viðbót við þá þjónustu sem viðskiptaþjónustan veitir íslenskum fyrirtækjum á degi hverjum.

Annar mikilvægur áfangi og framfaraskref var opnun Heimstorgs, þjónustuborðs atvinnulífsins, þar sem á einum stað hægt að nálgast upplýsingar um tækifæri sem eru í boði fyrir íslensk fyrirtæki og atvinnulíf í þróunarlöndunum og víðar. Er þetta afar mikilvæg viðbót til að styðja við sókn á fjarmörkuðum. Utanríkisþjónustan býr yfir neti útsendra og staðarráðna starfsmanna í 21 landi og að auki eru rúmlega 200 kjörræðismenn í 85 löndum, sem sinna starfi sínu í þágu Íslands í sjálfboðavinnu. Allt þetta fólk er til staðar til þess að gæta hagsmuna íslenskrar þjóðar, íslensks almennings og fyrirtækjanna í landinu.

Þriðja atriðið sem ég vil nefna, ágætu fundarmenn, er kannski það mikilvægasta og það sýnir hvaða árangri hægt er að ná þegar allir leggjast á eitt.

Í dag, á þessum fundi, munum við Anne Hallberg, utanríkisviðskiptaráðherra Svíþjóðar, formlega hleypa af stokkunum samstarfi Íslandsstofu og systurstofnunar hennar í Svíþjóð, Business Sweden. Samstarfið gefur íslenskum fyrirtækjum aðgang að stóru og víðfeðmu tengslaneti Business Sweden um heim allan, á meira en 40 mörkuðum erlendis og hefur á sjötta hundrað starfsmanna á sínum snærum.

Ég er þess fullviss að með samstarfi þessara systurstofnana, Business Sweden og Business Iceland, eins og Íslandsstofa heitir nú á ensku, mun samvinna Íslands og Svíþjóðar í viðskiptum dýpka enn frekar og að tækifæri geti einnig skapast fyrir íslensk og sænsk fyrirtæki til samstarfs. Þetta er gott dæmi um mikilvægi og gildi norrænnar samvinnu. Með því að starfa saman verðum við sterkari.

Við heyrum oft talað um gildi norrænnar samvinnu en dæmin um raunverulegan ávinning eru alltof fá. Hér í dag, ágætu fundarmenn, erum við að sjá norræna vináttu og norræna samvinnu í verki - á borði, ekki bara í orði.

Að baki þessu liggur mikil vinna og mig langar að þakka sérstaklega mínum sænsku kollegum Ann Linde og Anne Hallberg fyrir að hafa lagt lóð sitt á vogarskálarnar, það skipti sköpum. Einnig eiga sendiráð beggja ríkja, sem og auðvitað starfsfólk Íslandsstofu og Business Sweden, miklar þakkir skildar.

Ég hef sagt það áður og segi það aftur, að sú samvinna sem staðfest er hér í dag mun valda straumhvörfum í möguleikum íslenskra fyrirtækja til sóknar á erlenda markaði.

Góðir fundarmenn

Mig langar að ljúka ræðu minni hér á í dag, eins og ég hóf hana, með því að rifja upp það sem ég sagði á þessum vettvangi fyrir þremur. Þá sagði ég að okkur hefði gengið margt í haginn á síðustu árum, að við hefðum gert margt vel en að sumu leyti höfum við verið heppin. Ég sagði jafnframt að við gætum ekki treyst á heppnina, að við mættum ekki leyfa okkur að treysta á heppnina.

Ég sagði að við værum í kapphlaupi við aðrar þjóðir og þær væru með plan. Góðir fundarmenn, núna, þremur árum síðar, eftir árangursríkar breytingar á Íslandsstofu, eftir náið samstarf stjórnvalda og atvinnulífsins, eftir ítarlega greiningarvinnu og stefnumótun, þá erum við líka með plan.

Næsta skref er að hrinda því í framkvæmd og það gerum við líka saman.”

Ávarpið var flutt á ársfundi Íslandsstofu 28. apríl 2021

Upptaka frá fundinum, dagskrá fundarins hefst á mínútu 15:00. Eliza Reid, forsetafrú stýrði fundi.

Deila