Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
26. mars 2012

Vorátak Inspired by Iceland

Nú er nýlokið fyrsta áfanga vorátaks Inspired by Iceland markaðsherferðarinnar.

Að þessu sinni var erlendum ferðamönnum boðið að kynnast íslenskri matarmenningu í stórbrotnu umhverfi íslenskrar náttúru, í litlu ferðahúsi á hjólum sem hefur fengið nafnið Eldhús.

Húsið var flutt um landið á tólf dögum og gestakokkar og áhugafólk um matreiðslu skiptist á um að útbúa veislumáltíð fyrir gesti. Húsið rúmar fjóra auk gestgjafa og matreiðslumanns.

Eitt það besta sem Ísland hefur upp á að bjóða er gestrisni og góður matur. Við erum að hvetja alla Íslendinga til þess að taka þátt í þessu verkefni og gera sem flestum kleift að kynnast íslenskri gestrisni.

Samhliða þessu höfum við hvatt Íslendinga til að bjóða ferðamönnum heim í eldhús og leyfa þeim að kynnast íslenskri matargerð og með þessu gera Ísland að ógleymanlegum áfangastað fyrir ferðamenn. Erlendir ferðamenn geta skoðað heimboðin á vef verkefnisins Inspiredbyiceland.com og óskað eftir því að taka þátt.

Í framhaldi af þessum 12 dögum mun áherslan verða lögð á íslenska hönnun og munum við halda áfram að ferðast með Eldhúsið um landið. Reynt verður að tengja þessa áherslu saman við upphafið á HönnunarMars. Íslenskir hönnuðir munu kynna sína hönnun í Eldhúsinu og ferðamönnum verður boðið að koma og kynnast hönnuðinum og hans verkum.

Lokahnykkurinn í vorátaki Inspired by Iceland er þátttaka í tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður. Tónlistarhátíðinni verður streymt af vef IBI og munum við hvetja Ísfirðinga og nærsveitamenn til þess að bjóða erlendum ferðamönnum samhliða heim í eldhúsið heima hjá sér. Einnig er stefnt að því að ferðast með Eldhúsið vestur á hátíðina og vera með heimboð fyrir erlenda ferðamenn í húsið

Deila